03.03.1924
Neðri deild: 13. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1015 í C-deild Alþingistíðinda. (2519)

58. mál, stofnun háskóla

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg skal ekki eyða mörgum orðum um efni frumvarpsins. Jeg vildi aðeins leggja það til, að því verði vísað til mentmn. Að vísu hefir öðrum málum líks efnis verið vísað til allshn., en það var að flestra dómi misráðið. Þar sem nú þetta frv. felur í sjer öll hin, gefst nú kostur á að leiðrjetta í einu þau mistök, sem orðið hafa. Vegna þess sparnaðar, sem frv. fylgir, hefir þeim verið vísað til allshn., en sparnaðurinn er svo augljós, að ekki þarf að vísa til nefndar til að reikna hann út, en hitt er hreint mentamál, hvort samboðið sje menning vorri og þjóðarsóma að grípa til slíks sparnaðar, og sje það ekki verksvið mentamálanefndar, sje jeg ekki, hvaða verkefni þeirri nefnd muni ætluð.