08.04.1924
Neðri deild: 45. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1023 í C-deild Alþingistíðinda. (2528)

58. mál, stofnun háskóla

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg get verið þakklátur hv. mentmn., sem flm. þessa frv., fyrir meðferð hennar á því yfir höfuð. Og jeg vil taka það fram, að jeg get til samkomulags fallist á flestar brtt. hennar. En til þess að lengja ekki umræðuna, skal jeg láta þær till. óumtalaðar, sem jeg get fallist á, og einungis minnast á þær, sem jeg tel athugaverðar.

Það eru þá eiginlega aðeins tveir síðustu stafliðirnir, e og f, í 4. brtt. nefndarinnar. Sá fyrri hljóðar svo: í staðinn fyrir „1 prófessor og 1 dósent í íslenskri málfræði og sagnfræði“ .... komi: „2 prófessorar í íslenskri málfræði, bókmentasögu og sagnfræði.“

Jeg tel þessa brtt. heldur til skemda. Ekki þó af því, að jeg sje á móti því, að þar sjeu tveir prófessorar í þessum fræðum, ef til eru tveir virkilega hæfir menn. En eins og stungið var upp á í frv. mínu, og nefndin hefir látið óhaggað standa, þá var það tilætlunin, að þessi embætti yrðu aðeins veitt þeim, sem að dómi háskólans væru sjerstaklega vel hæfir. Það er mikilsvert, að í þessi embætti sjeu ekki aðrir skipaðir en menn, sem eru sjerstaklega vel hæfir og geta einnig út á við skipað stöðurnar með fullum heiðri. En mjer virðist, að vel gæti staðið þannig á, að til væri maður, sem rjettmætt væri að skipa sem dósent, án þess að vissa væri fyrir því, að hann gæti risið undir prófessorsnafni með fullum heiðri. Því álít jeg hentugra, að í lögunum standi: einn prófessor og einn dósent. Hitt er vitanlegt, að öllum er svo ant um þetta starf, að ef að því kæmi ungur dósent, sem gæfist svo vel, að verðugt þætti að skipa hann prófessor, þá yrði það gert. Þetta yrði betri úrlausn fyrir háskólann og þjóðina heldur en till. nefndarinnar. Eins og menn sjá, er hjer ekki um efnismun að ræða, en jeg verð að halda fast við það, að uppástunga frv. sje hagkvæmari.

Þá er brtt. nefndarinnar 4, f: „Forstöðumenn þjóðskjalasafnsins, þjóðmenjasafnsins og landsbókasafnsins eru samkvæmt embættisstöðu sinni aukakennarar í íslenskum fræðum.“ — Jeg hefi áður tekið það fram, að mjer virðist eðlilegt að gera þessa skipun, ef mönnum sýndist að hafa ekki nema einn fastan kennara í íslenskum fræðum. En nú er gert ráð fyrir tveimur fastakennurum í frv. Jeg kýs því heldur, að þessi embætti — þjóðskjalavarðar og landsbókavarðar — verði sameinuð, en þá er vitanlega engin leið fyrir þann mann, er gegnir þeim báðum, að hafa kenslu á hendi. Nú er ósjeð, hvernig um það frv. fer við 3. umr., og vil jeg því fara þess á leit við nefndina, að þessi till. verði ekki látin koma til atkv. fyr en við 3. umr., þegar sjeð eru forlög hins frv.