08.04.1924
Neðri deild: 45. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1026 í C-deild Alþingistíðinda. (2530)

58. mál, stofnun háskóla

Magnús Jónsson:

Jeg veit ekki, hvort hv. þdm. hafa athugað, að jeg er á annari skoðun en nefndarmenn mínir, af því að athugasemd mín hefir lent á annari síðu í nál. Þetta, hvað jeg er einmana á pappírnum, veit máske á það, að jeg verði líka einmana í deildinni. Annars hugga jeg mig, þegar jeg er í minnihluta, við orð Ibsens um það, að minnihlutinn hafi ætíð á rjettu að standa. En þegar jeg er í meirihluta, þá tek jeg auðvitað undir það fornkveðna: Vox populi, vox Dei.

Jeg á von á því, að þetta frv., sem hjer liggur fyrir, sigli beggja skauta byr gegnum deildina. Ef ætti að færa sönnur á það, að þinginu beri að hlynna að háskóla vorum, þá vantar illa hv. þm. Dala. (BJ), og býst jeg við, að mjer tjái illa að fara í hans föt og mæla hans máli. Við umræðu fjárlaganna fór hjer fram eftirtektarvert karp um fjárkláða og málverk. Var þar rætt um, hvers virði listin væri. Þetta er náttúrlega vel til þess fallið að deila lengi um það, því að það hefir svo ólíkar hliðar. Ef hungraður maður ætti Sixtinsku madonnu, og ljeti hana fyrir blóðmörskepp, þá mundi samt varla gerlegt að leggja þann mælikvarða á listaverkið, að það væri ekki meira en keppsvirði.

Einmitt í þessu tilliti er saga þjóðar vorrar mjög eftirtektarverð. Við höfum frá upphafi lifað af landbúnaði og sjávarútvegi. Og þetta hefir altaf gengið illa og verið okkur til vanvirðu, alla tíð, fyrir það, hve miklir afturúrkreistingar við höfum verið í þessum efnum. Ef við hefðum ekki annað til að hrósa okkur af, þá værum við í sannleika lítils virði. Álit okkar út á við stafar alt frá vísindum okkar og bókmentum. Þær hafa farið furðu víða. Og þær hafa gert það að verkum, að þjóðin loks gat rjett sig úr kreppunni. Og það er einkennilegt, að þessum bókmentum hefir fylgt svo mikill kraftur, að aðrar þjóðir, eins og Norðmenn, hafa orðið að játa, að hefðu þeir ekki notið við íslenskra bókmenta, sem geymt hafa minningar frá þeirra fornu frægðartíð, þá mundu þeir ekki hafa rjett eins fljótt við og þeir gerðu.

Því er nú skotið fram, að við eigum ekki neinar bókmentir háskólanum að þakka. Jú, það getur verið, en þó er það nú ekki alveg rjett. En enginn skyldi halda það, að slíkar bókmentir sem fornbókmentir Íslands spretti upp alt í einu og sjálfkrafa. Á vissum tímum spretta fram sígild listaverk, en þau vaxa upp af iðju og svita þeirra, sem langtímum saman hafa kept að þessu marki, án þess nokkru sinni að ná svo hátt.

Nú, þegar við höfum rjett við þjóðfjelag okkar, þá höfum við litið svo á, að okkur bæri að leggja sjerstaka rækt við bókmentirnar. Og á þeirri stefnu er háskólinn reistur. Áður voru hjer skólar handa embættismannaefnum, svo háskólinn er ekki nýr í þeim greinum. Kenslan hefir aðeins verið aukin nokkuð síðan, en það mundi eins hafa verið gert við embættaskólana gömlu, þó að þeir hefðu verið áfram sjerstakir. Þrjár deildir háskólans eru áframhald af prestaskóla, læknaskóla og lagaskóla. Þær búa embættismannaefni undir lífsstörf þeirra, og yfirleitt munu þær hafa leyst það verk vel af hendi, og fremur vonum, þar sem bæði var styttri námstími og ljelegri kenslutæki en alment gerist við slíka skóla. En það sem rjettlætti það, að háskóli var stofnaður, og var hans eini tilgangur, það var að bæta við deild, sem hjeldi á lofti fornum fræðum íslenskum, sem við stöndum öllum þjóðum betur að vígi í, eins og hv. frsm. (ÁÁ) tók rjett og ljóslega fram.

Þegar í byrjun var heimspekisdeildin spent í þröngan stakk með fullkomnu kotungssniði. Henni var þannig ekki ætlað að búa menn til meistaraprófs. Þar átti að vera einn prófessor og einn dósent, og áttu þeir að annast það tveir, sem margir menn vinna við aðra háskóla. Úr þessu var dálítið bætt, er sá maður var gerður að prófessor, sem áður var dósent. Með því var viðurkent, að hjer væru störf handa tveim fullkomnum vísindamönnum, sem hjetu prófessorar. Og svo var með sjerstökum fjárveitingum bætt við nýjum manni, sem sjerstaklega hafði málfræðikenslu á hendi.

Svona sigldi þá háskólinn af stað. Af öllum þeim hæpnu stofnunum, sem við Íslendingar höfum sett á laggir, var háskólinn einhver sú hæpnasta.

Engin okkar stofnun hefir komist eins nærri því að kafna undir nafni. Enda varð þess vart hjá vinum okkar, Dönum, að þeir brostu heldur út í annað munnvikið að háskóla vorum, og ljetust ekki vita, hvort rjettara væri að kalla hann Universitet eða Höjskole.

Það er ómögulegt að neita því, að háskólinn var stofnaður með allri þeirri hófsemi, sem unt var, svo ekki sje meira sagt, og siglt svo nærri vindi sem framast mátti, til þess að háskólinn gæti borið nafn sitt án vanvirðu. En síðan fer Alþingi að auka embættum við háskólann, án þess að háskólaráðið bæri fram um það minstu ósk. Var það einkennilegt ástfóstur, meira að segja mjög svo einkennilegt ástfóstur, sem Alþingi tók eftir á við þessa stofnun. Fyrst var stofnað grískudósentsembættið, eða kennaraembætti í klassískum fræðum. Reyndar var háskólinn spurður ráða, og auðvitað svaraði guðfræðisdeildin því, að mjög svo æskilegt væri, að guðfræðanemendum yrði kend gríska. Býst jeg við, að enginn geti láð henni það. Svo kom embættið í hagnýtri sálarfræði. Þar svaraði háskólinn auðvitað því, að maðurinn væri ágætlega hæfur og æskilegt, að hann fengi starfssvið hjer. En það er jeg viss um, að ef háskólinn hefði vitað, hver ásteitingarsteinn þessi embætti yrðu síðar og hverjar eftirtölur yrðu hafðar um þau, þá hefði hann með öllu neitað, þá er hann var spurður um, hvort æskilegt væri að þau yrðu stofnuð. Því svo fór, að varla höfðu þau verið sett á stofn, fyr en þau urðu sá Akkilesarhæll, sem allir virtust þurfa að hæfa, sem undir niðri var litið um háskólann. Og brátt óx þetta. Það er nú einusinni svo, að ef brenna á hefilspónahrúgu í húsum inni, þá vill þannig fara, að ekki aðeins hrúgan brenni, heldur kvikni einnig í gólfinu og veggjunum. Eins var þarna; fyrst var byrjað á að níða þessi embætti, sem stofnuð höfðu verið án óska háskólaráðsins, og síðan ráðist á stofnunina í heild.

En eins og jeg hefi sagt, var háskólinn upphaflega stofnaður með þeim minstu kenslukröftum, sem unt var að komast af með. Skal jeg svo ekki fjölyrða um þetta frekar, en einmitt þetta vakti fyrir mjer, þegar jeg skrifaði klausuna við nefndarálit mentmn., því að jeg vil ekki fyrir nokkurn mun, að þeir kenslukraftar, sem háskólinn var í fyrstu stofnaður með, sjeu að nokkuru leyti skertir. Um brtt. nefndarinnar ætla jeg ekki að vera margorður. Að biskup taki að sjer kenslu þá, sem dósent hefir nú á hendi, er ef til vill gott og blessað. Það er líklega ekki nema vel meint að stuðla að því, að biskup læri eitthvað í háskólanum ekki síður en lærisveinarnir, bara þá guðfræðisdeildin geti kent honum nokkuð. Annars verður ekki á móti því borið, að þetta er skerðing á kenslukröftum deildarinnar.

Nú hefir verið samþykt við 2. umr. að sameina landsbóka- og þjóðskjalavarðarembættin, og hjelt jeg þá, að heimspekisdeildin fengi að halda sínum kennurum. Finst mjer, að norrænudeildin megi ekki vel missa kenslukrafta úr því sem orðið er, þar sem feld hefir verið hjer í háttv. deild fjárveitingin til aukakennarans í málfræði og ekki er framar neinnar hjálpar að vænta frá söfnunum. En sje það meiningin, að skerða deildina framar en orðið er, þá held jeg, að betra sje að hætta þessu alveg, leggja hana alveg niður, því að þá er hún orðin til háborinnar skammar, enda ómögulegt fyrir hana að leysa starf sitt sæmilega af hendi. Gæti reyndar vel verið, að hún væri hentug fyrir menn, sem væru hneigðir fyrir norræn fræði, til þess að vinna að áhugamálum sínum í ró og næði. En boðleg háskóladeild í norrænum fræðum yrði hún ekki.

Þá er í frv. það ákvæði, að embættin verði ekki veitt, nema í þau fáist sjerlega færir menn. Þegar sá múrveggur, sem þetta ákvæði er, hefir verið hlaðinn, þá held jeg, að óhætt ætti að vera að segja, að ekki ætti að vera hættulegt að lofa deildinni að halda tveimur prófessorum. Hæstv. fjrh. (JÞ), sem er flutningsmaður frv., heldur því fram, að heppilegra sje að hafa einn prófessor og einn dósent, heldur en tvo prófessora, þar sem hægra muni að fá hæfan mann í dósentsembætti heldur en í prófessorsembætti. Jeg er þar á gagnstæðri skoðun. í frv. er sagt, að ekki eigi að veita embættin, nema háskólaráðið telji umsækjandann vel hæfan. Sje jeg ekki annað en sá maður, sem hefði gengið í gegnum þann hreinsunareld, ætti alveg eins að geta verið prófessor og dósent, nema fremur væri. Og það er alveg víst, að hægra verður að fá hæfan mann í prófessorsembætti en í dósentsembætti, því að fáist hæfur maður — reglulega vel hæfur maður — þá getur háskólinn ekki verið þektur fyrir að bjóða honum annað en prófessorsembætti, enda mundi hann sjálfur ekki líta við öðru. Eiga og slíkir menn venjulega kost á líkum embættum annarsstaðar, og þá við betri kjör. Hæstv. fjrh. (JÞ) sagði, að fengist reglulega hæfur maður, þá mundi þingið þegar í stað verða fúst til að breyta embætti hans í prófessorsembætti. Jú, það er víst ekki hættan á öðru. Þingmenn þurfa víst ekki annað en hugsa sig um til þess að finna, að þeir eru allir fúsir til þessa. En ein deild háskólans, guðfræðideildin, baðst þess hvað eftir annað, að dósentsembættið yrði gert að prófessorsembætti. Var það áður en jeg tók við því embætti, og tel jeg það alt annað mál, þó að mjer hefði verið neitað um slíka upphefð. En þá var í embættinu eldri maður, valinkunnur á allan veg, ágætur vísindamaður, skyldurækinn og góður kennari, og maður, sem aldrei mátti vamm sitt vita. En um það var ekki að tala, að hans embætti fengist gert að prófessorsembætti. En þegar farið var fram á það, að norrænudósentinn yrði gerður að prófessor, þá er það sjálfsagt, að þm. þjóti upp til handa og fóta: já, já, sjálfsagt, og þó fyr hefði verið. Nei, svo að við sleppum öllu gamni, svona rök á ekki að bera fram. Þau eru alt of lík háði um hv. þm.

Jeg vona, að hæstv. deild sjái það, að nú er búið að ganga svo frá háskólanum, eða að minsta kosti heimspekisdeildinni, að hann má ekkert missa. Sjerstaklega þegar ekki er að vænta neinnar hjálpar frá söfnunum og ekki á að veita þessi embætti nema sjerlega hæfir menn fáist í þau. Jeg vil því fara fram á það við hv. deildarmenn, að þeir felli frv. Stjórnin hefir hvort sem er á sínu valdi að losna við menn úr háskólanum, ef hún sjer þess þörf, þar sem er um það skýlaus heimild, að flutt sje til í embættum. Annars held jeg, að við sjeum ekki svo aðþrengdir ennþá, að við þurfum að kreppa meira að þessari aðkreptu stofnun. Læt jeg hjer svo lokið máli mínu að sinni.