08.04.1924
Neðri deild: 45. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1032 í C-deild Alþingistíðinda. (2531)

58. mál, stofnun háskóla

Tryggvi Þórhallsson:

Það eru aðeins örfá orð.

Mjer er það ljóst, að hæstv. fjrh. (JÞ) hefir tekið upp í frv. sitt tvö frv., sem jeg hefi borið fram, frv. um afnám grískudósentsembættisins og frv. um að lagt verði niður eitt prófessorsembætti við háskólann og biskup taki að sjer kensluna.

En eins og nefndin hefir gengið frá frv., er þar ekki gert ráð fyrir jafnmiklum sparnaði og jeg hafði ætlast til í mínum frv. Nefndin leggur til, að dósentsembættið verði lagt niður, en ekki prófessorsembætti í guðfræðideildinni, og er tekið fram, að breytingin verði ekki gerð fyr en þau losni, og sama gildir um grískudósentinn. En þrátt fyrir þetta vil jeg ekki ljúka máli mínu á sama hátt og hv. 4. þm. Reykv. (MJ), þar sem jeg býst ekki við, að mín frv. nái fram að ganga, og kýs þá, heldur en ekkert, það, sem nefndin leggur til. Mun jeg því greiða atkv. með frv., að áorðnum breytingum nefndarinnar.

Úr því jeg stóð upp, vil jeg bæta við nokkrum almennum athugasemdum út af því sem hv. 4. þm. Reykv. (MJ) sagði. Hann kvað bókmentir vorar, hinar fornu, hafa gert garðinn frægan, og værum við vonum framar öðrum þjóðum að góðu kunnir, einmitt fyrir þær. Jeg vil minna hv. þm. (MJ) á það, að þetta stendur ekkert í sambandi við embættaverksmiðju háskólans. Þaðan hefir okkur engin frægð staðið. Innlendar fræðaiðkanir lærðra og leikra hafa gert landinu mestan sóma, og er þar sama að segja enn í dag eins og áður fyrrum, og mest utan háskóla. Þykir mjer það ærið undarlegt, að sje hv. þm. (MJ) á þesari skoðun, þá vilji hann þó ekki styðja að því, að háskólinn fái að njóta framvegis þess mannsins, sem fyrst og fremst styður innlendu fræðaiðkanirnar, prófessors Sigurðar Nordal. Sá maður verður að teljast allra hluta vegna annar sjálfsagðasti forystumaður vor í rannsókn þeirra fræða, sem hafa gert og gera enn garðinn frægan. Vænti jeg þess því fastlega, að hv. þm. (MJ) leggi því lið, að þessi maður verði ekki látinn fara af landi brott fyrir þær sakir, að hið háa Alþingi kunni ekki að meta, hvers virði hann er.