08.04.1924
Neðri deild: 45. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1034 í C-deild Alþingistíðinda. (2532)

58. mál, stofnun háskóla

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Samkvæmt ósk hæstv. fjrh. (JÞ) ætla jeg að leyfa mjer fyrir hönd nefndarinnar að taka aftur til 3. umr. tillöguna um að landsbóka- og landsskjalaverðir kenni við heimspekisdeild háskólans. Mótmæli því enginn nefndarmanna, lít jeg svo á sem þeir sjeu því samþykkir.

Annars skildist mjer á ræðu hæstv. fjrh.(JÞ), að það væri alls ekki mikið, sem honum og nefndinni bæri á milli um það, hversu skyldi háttað kenslu ísl. fræða við háskólann. Eftir orðum hans að dæma, virðist ekki nógu skýrt tekið fram í frv., hvað hann meinar. En meining hans virðist vera sú, að því að eins sjeu ekki skipaðir tveir prófessorar til kenslu í íslenskum fræðum, að ekki fáist þar til reglulega hæfir menn. Mun hann því flytja þá brtt. við 3. umr., ef honum þykir svo mikils um vert, að íslensk fræði skuli kenna tveir prófessorar, en ef embætti losni og ekki fáist í það hæfur maður, þá skuli í bráðina setja dósent í staðinn, eða mann með dósentslaunum. Býst jeg ekki við, að neinir hefðu á móti slíkri breytingu, því að engum ætti að þykja æskilegt, að aðrir en afburðamenn yrðu gerðir að prófessorum í þeim fræðum, þar sem Íslendingum er metnaðarsök að standa framar öðrum að þekkingu. Tók jeg strax eftir þessu ákvæði í frv. hæstv. fjrh. (JÞ), og líkaði vel.

Þá vil jeg víkja nokkrum orðum að ræðu hv. 4. þm. Reykv. (MJ). Hann virtist vera mjög hræddur um, að ætlun okkar, sem fylgjum þessu frv. sje sú, að rífa niður allan háskólann. En jeg sje ekki, að hv. þm. (MJ) þurfi þar neitt að óttast. Honum fer þarna í rauninni eins og ef undan honum brotnaði stólinn og hann hjeldi þá húsið vera að hrynja. Sje jeg ekki, að till. mentmn. snerti að nokkru stofn háskólans.

Sami hv. þm. (MJ) talaði mjög um málið á við og dreif, og sagði raunar margt satt um bókmentir vorar og þá frægð, er þær hefðu aflað oss. En margt sagði hann einnig, sem jeg sje ekki að þessu komi hið minsta við. Rifjaði hann t. d. upp gamlar deilur um það, hvort háskólinn gæti kallast Universitet eða hvort hann ætti að heita „Höjskole“. Jeg vil benda á það, að engin vanvirða þyrfti háskóla vorum að vera að því, þó að hann væri ekki nefndur Universitet. Miklu stærri og fullkomnari skólar bera „högskola“-nafnið, og nægir þar að taka til „högskolana“ í Stokkhólmi og Gautaborg, sem eru báðir fullkomnir háskólar að öðru leyti en því, að þá vantar guðfræðideild.

Annars fanst mjer hv. þm. (MJ) sýna fullmikla viðkvæmni í þessu máli. Setti hann háskólann í svo náið samband við íslenskar mentir, að svo virtist sem ekkert væru bókmentir nema það, sem frá háskólanum kæmi. Það eru ekki bókmentir háskólans, sem hafa gert garðinn frægan. Prestaskóli hafði staðið hjer áratugum saman og lækna- og lagaskóli nokkra hríð, áður en háskólinn var stofnaður. En enn þá hafa engin svo merk vísindarit verið skrifuð í þessum fræðigreinum, að klassisk megi kallast. Sannar bókmentir eru innblásnar af spámannlegri og skáldlegri andagift, sem jafnt getur skotið rótum í íslenskri mold, hvort sem háskólinn er til eða ekki. Svo er um passíusálma Hallgríms Pjeturssonar og Vídalínspostillu. En í þessu frv. er ekki verið að grýta spámenn, heldur skipa svo málum, að fræðimenn og skriftlærðir sjeu ekki launaðir fleiri af landsfje en þörf krefur. Vona jeg því, að till. mentmn. fái góðan byr og frv. verði samþykt.