23.04.1924
Efri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í B-deild Alþingistíðinda. (254)

1. mál, fjárlög 1925

Halldór Steinsson:

Jeg á hjer 2 brtt. Er raunar óþarfi að fara að mæla með þeim hjer, því jeg hefi þegar gert það við 2. umr. Þá hreyfði enginn mótmælum nema háttv. 5. landsk. þm. (JJ), og þar sem þá var orðið áliðið nætur, svaraði jeg ekki þá, enda er það líka svo, að það er jafnan ilt verk og leiðinlegt að svara þessum háttv. þingmanni, því hann er kunnur að því að vaða um alt milli himins og jarðar og gerir sjer lítið far um að komast að aðalefni þess, sem um er að ræða. Að þessu sinni fór hann einkum út í menningarástandið í Snæfellsnessýslu, og taldi hann það standa mjög að baki því, sem ætti sjer stað í öðrum hjeruðum landsins. En jeg verð að álíta, að jeg sje bærari en hann að dæma um þetta atriði, því jeg hefi um 25 ára skeið fylgst með í því, sem gerst hefir í þessari sýslu. Og af þeirri viðkynningu dreg jeg óhikað þá ályktun, að menningarástandið þar sje síst lakara en á sjer stað annarsstaðar á landinu. Og það er að minni hyggju ekki síst því að þakka, að óheillastefna hans hefir aldrei náð að festa þar rætur, og því ekki getað eitrað út frá sjer þar. (JJ: Þar er þó kaupfjelag). Það er satt að vísu, að kaupfjelög hafa verið sett þar á stofn, raunar ekki fyrir tilverknað Jónasar Jónssonar eða hans nóta, en því er nú ver og miður, að flest þessi fjelög hafa lent í botnlausum skuldum og orðið að hætta starfsemi sinni, og hygg jeg, að samábyrgðarflækjan hafi átt mestan þátt í því.

Þá gerði háttv. þm. utanfararstyrk hjeraðslækna að umtalsefni. Var svo að skilja, að hann teldi þá stjett manna vera svo vel launaða, að þeir þyrftu ekki á slíkum styrk að halda, auk þess sem þeir hefðu drjúgar aukatekjur af áfengissölu. Það er ekki í fyrsta sinni, sem hann hefir reynt að koma að þessari blygðunarlausu aðdróttun, sem jeg hefi jafnan talið vera fyrir neðan virðingu mína að svara. En þegar hann dróttar þessu sama að einhverjum merkasta og besta manni í læknastjett þessa lands, þá fer skörin vissulega að færast upp í bekkinn. Þá er það ekki aðeins orðin móðgun við læknastjettina, heldur við alla þjóðina. Öfunda jeg hann ekki af þeirri sæmd, sem hann uppsker fyrir það. Hann spurði, hvers vegna læknar gætu ekki kostað utanferðir sínar sjálfir. Það kemur lítið málinu við. Það var mjög fátítt áður, að læknar færu utan, sem sýnir, að þeir hafa ekki efnalega treyst sjer til þess; en síðan byrjað var að veita þennan styrk, hefir hann verið mjög eftirspurður, enda er viðurkent, að árangurinn af þessu hefir verið mjög góður.

Hin brtt. mín fer fram á, að veittar verði 20 þús. kr. til sjúkraskýla í landinu, í stað 15 þús. kr. til eins sjúkraskýlis í Borgarfirði. Jeg tel sjálfsagðara, að heilbrigðismálastjórnin úthluti fremur þessum styrk en þingið, sem auðvitað hefir miklu síður skilyrði til að geta dæmt um það, hvar þörfin er mest aðkallandi heldur en landlæknir.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um brtt. mínar.