29.02.1924
Neðri deild: 11. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1045 í C-deild Alþingistíðinda. (2545)

36. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Forsætisráðherra (SE):

Jeg hefi við mörg tækifæri lýst yfir því, bæði í hv. Nd. og hv. Ed., að jeg teldi æskilegt að gera embættakerfi landsins einfaldara en það er nú, og jeg hefi ekki látið sitja við orðin tóm. Stjórnin sýndi í fyrra mjög alvarlega viðleitni í þessu efni, þar sem hún reyndi að draga að mun úr kostnaðinum við embættismannahaldið. Jeg á við embættismannafrv., sem lögð voru fyrir síðasta þing. Hefði þeim frv. verið tekið, mundi stjórnin hafa gengið ennþá lengra í þessu efni. Jeg skal ekki draga þessi frv. inn í umræðurnar, en einungis benda á, að þar kom fram sá mesti sparnaður, sem nokkurntími hefir verið fram borinn á þingi. Jeg er í engum vafa um það, að þjóðin mun, áður en líður á löngu, heimta, að þessi frv. verði borin fram á ný.

En hitt er jafnvíst, að þótt þetta þing reyni að framkvæma hinn og þennan sparnað, þá verður sá sparnaður aldrei nægur til að bjarga landinu úr þeim augnabliksvandræðum, sem það er komið í. Jeg skal í þessu sambandi endurtaka það, sem jeg sagði í hv. Ed. fyrir nokkrum dögum.

Mjer virðist sem margir líti svo á, að hafi þeir skrifað nafn sitt á einhverja sparnaðartillögu, hafi þeir friðað samviskuna og bjargað þjóðinni. Þessir menn hugsa svo mikið um smáatriðin, að þeir gleyma þeim stóru, þeim málunum, sem mest á ríður.

Jeg skal játa, að hv. flm. (TrÞ) er færari en jeg að dæma um nauðsyn þessa embættis fyrir þá, sem leggja stund á sögunám við háskólann. En það er ljóst, að það er gott fyrir guðfræðingana að eiga kost á að læra grísku, svo að þeir geti lesið Nýjatestamentið á frummálinu. Svo margvíslegar eru nú skoðanir manna á trúmálum og skilningur á ritningunni, og þjóðkirkjan svo rúm orðin, að nauðsynlegt virðist, að prestarnir geti sjálfir lesið hina umþráttuðu staði á frummálinu. Jeg hefi nýlega lesið ritgerð eftir einn af háttv. þm., þar sem mikið er úr því gert, hve heitur trúmaður fyrsti landnámsmaðurinn var, og var hann þó alheiðinn. Þetta bendir á, að það gildi einu, á hvað menn trúi, ef trúin er nógu sterk. Þegar lærðu mennirnir koma með annað eins og þetta, er við því búið, að við hinir getum ruglast í barnalærdómnum, og er því nauðsynlegt, að hver og einn prestur geti rannsakað ritningarnar sjálfur.

Mjer finst aðalatriðið í þessu máli vera það, að ekki megi afnema þessi lög, meðan sá maður gegnir embættinu, sem nú situr í því. Jeg minnist þess, að þegar stjórnin flutti í fyrra frv. um sameiningu þjóðskjalavarðar- og landsbókavarðarembættanna, sem felt var hjer í háttv. deild, var það talið merkilegt, að kenslumálaráðherra skyldi sýna svo mikið ræktarleysi gagnvart dr. Jóni Þorkelssyni að koma með það frv., að honum lifandi. Þó var tilskilið í frv., að hann skyldi sitja í embætti sínu svo lengi sem hann vildi og entist aldur til. En það er vitanlegt, að Bjarni frá Vogi hefir unnið til viðurkenningar fyrir starf sitt í þágu þjóðarinnar, og eitt er víst, að nafn hans mun lifa, þegar ýmsir aðrir eru gleymdir. Það er því afarmikið ræktarleysi að afnema þetta embætti í hans tíð og láta hann standa á klakanum með unga konu og 4 ung börn. En til er margt, sem getur hefnt sín, og ekki síst þetta, að sýna bestu mönnum sínum of mikið ræktarleysi. Það er að vísu satt, að hann er óhlífinn í orðum hjer á þingi og lætur óspart hnútur fljúga um borð til hægri og vinstri, og má vel vera, að sumum sárni það stundum. En jeg þykist vita, að hann muni ekki dæmdur fyrir það, heldur af verkum sínum, þeim, sem hann hefir unnið í sjálfstæðismáli þjóðarinnar. Og það má teljast undarlegt, að þegar sjálfstæðismál þjóðarinnar eru loksins komin í það horf, sem þau eru, að þá skuli altaf hið háa Alþingi vera að vega í garð þessa manns, sem hefir jafnan verið meðal hinna fyrstu forkólfa sjálfstæðisbaráttunnar.

Jeg geri ekki ráð fyrir, að þjóðin muni ekki meta þesa undarlegu tilhneigingu ýmsra hjer á Alþingi.