29.02.1924
Neðri deild: 11. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1048 í C-deild Alþingistíðinda. (2546)

36. mál, afnám kennarastóls í klassískum fræðum

Flm. (Tryggvi Þórhallsson):

Mjer þykir gott til þess að vita, að útlit er fyrir, að ekki verði langar umræður. Jeg mun ekki fara mörgum orðum um þann hluta af ræðu hæstv. forsrh. (SE), sem snerist um guðfræðina og hans barnslegu trú. En hitt, sem hann sagði, að með þessu frv. væri verið að kasta þessum manni út á kaldan klakann, þá er þetta algerlega rangt og annaðhvort sprottið af misskilningi hjá hæstv. forsrh. (SE), eða því, að hann hafi viljað misskilja tilgang okkar flm. frv. Því jeg held, að eftir framsögu mína ætti honum að hafa verið það sæmilega ljóst, að við hefðum ætlast til að honum væri fengið starf við mentaskólann, sem hæfileikum hans væri samboðið. (SE: Er nokkurt embætti laust þar?) Það er á valdi forsætisráðherrans; hann getur jafnan látið þar verða laust starf, enda hefir hann nýlega stofnað þar nýtt embætti, án heimildar frá þinginu. Og jeg vil segja, að það væri makleg uppreisn fyrir þennan mann að láta hann nú hafa virðulegt embætti við þá stofnun, sem honum var sparkað út úr fyrir 20 árum.