23.04.1924
Efri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 899 í B-deild Alþingistíðinda. (255)

1. mál, fjárlög 1925

Sigurður Eggerz:

Það er alt annað en skemtilegt fyrir annan eins friðsemdarmann eins og mig að taka til máls eftir þær ræður, sem nú hafa verið haldnar.

Jeg hefi ekki miklu að bæta við það, sem jeg sagði í dag viðvíkjandi sendimanninum til Spánar. Má vel vera, að það hefði verið rjettara af stjórninni að koma með till. um það í fjárlagafrv. En jeg hafði hugsað mjer, að betur færi á að leita fyrst samkomulags við háttv. fjvn.; taldi það sigurvænlegra fyrir framgang málsins. En hafi það verið vanræksla, að þetta kom ekki í fjárlagafrv., þá hefði mátt búast við, að hin nýja stjórn hefði bætt úr því. Annars er það auðvitað aðalatriðið, að málið nái fram að ganga, og vil jeg þá sjerstaklega láta í ljós ánægju mína yfir þeim áhuga og skilningi, sem einhver yngsti þingmaður í þessari háttv. deild, háttv. þm. Vestm. (JJós), hefir sýnt í þessu máli. Og sjálfur lít jeg svo á, að mál þetta sje svo mikils vert fyrir þessa þjóð, að mjög mikið sje gerandi fyrir það. En því miður er sá hugsunarháttur ennþá altof víða ríkjandi, að við eigum ekki sjálfir að hugsa um mál okkar út á við. En vonandi hefir háttv. deild ekki slíkan skilning á þeim málum, og er þess þá að vænta, að þessi brtt. frá háttv. þm. Vestm. fái góðan byr.

Inn á fjárhaginn alment skal jeg ekki fara langt. Jeg get að mestu vísað til þess, sem jeg sagði í fyrri ræðu minni.

Fyrverandi stjórn tók við völdunum á þinginu 1922, og það var því varla við því að búast, að hún kæmi með nokkur tekjuaukafrv. þá á því þingi, og sjerstaklega, eins og jeg tók fram í fyrri ræðu minni, þegar nýbúið var að endurskoða alla skattalöggjöfina og reynslan var ekki þá fengin fyrir, hvernig sú endurskoðun mundi reynast. Auk þess hafði fyrverandi fjármálaráðherra, Magnús Guðmundsson, lýst yfir því, að þjóðin þyldi ekki meiri skatta, og allmargir fleiri voru á þeirri skoðun.

Jeg vil ekki neita því, að fyrverandi fjármálaráðherra, Magnús Jónsson, spáði of bjart um framtíðina í byrjun ársins 1923, en hann fór frá á því þingi, en í hans stað kom Klemens Jónsson, og hann benti þegar á örðugleikana. Tekjuaukafrv. stjórnarinnar, verðtollsfrv., var felt á því þingi, og þetta sýnir, að þingið leit þá einnig of bjart á fjárhaginn, enda endurskoðun skattalöggjafarinnar svo nýafstaðin, að flestum virtist lítil ástæða til þess að fitja strax aftur upp á þessum málum. En eins og jeg hefi áður vikið að, þá fór hnúturinn að harðna þegar leið á árið 1923, og þá var ekki lengur um neinar varamiljónir að ræða, en tekjurnar reyndust of litlar. Þá fyrst var farin sú leið, ekki aðeins að spara óþarfann, heldur einnig að draga úr nauðsynlegum framkvæmdum eins og unt var.

Fyrverandi stjórn hóf þá sparnaðarstefnu í fjármálum, sem nú ríkir hjer á þingi. Það var hún, sem sneri við á hinni hálu braut. Eða hvað hefir núverandi hæstv. stjórn gert til þess að bjarga fjárhagnum annað en það, sem fyrverandi stjórn var búin að gera?

Fyrverandi stjórn lagði fram mjög gætilegt fjárlagafrv. Sömuleiðis lagði fyrverandi stjórn fram gengisviðaukafrv., til þess að afla ríkissjóði tekna, og það frv. hefir verið samþykt í þinginu. Og hvað hefir svo verið gert meira? Það hefir verið samþykt eitt tekjuaukafrv. til, sem sje frv. um bráðabirgðaverðtoll á nokkrum vörutegundum, en þetta frv. flutti ekki stjórnin, heldur háttv. fjárhagsnefnd Nd. Og þó mjer þætti þetta frv. hart aðgöngu, þá greiddi jeg þó fyrir því og studdi að framgangi þess hjer í þinginu. Þetta frv. hefði því vitanlega verið samþykt hjer í þinginu, þó engin stjórnarskifti hefðu orðið. Jeg get því ekki sjeð, að hæstv. stjórn hafi gert neitt annað en það, sem fyrverandi stjórn hafði lagt grundvöll að.

Hjer hefir verið minst á innflutningshöft. Ekki sje jeg nú stórvirkin, sem unnin hafa verið í því máli. Frv. í háttv. Nd. var vísað til stjórnarinnar samkvæmt til. háttv. 3. þm. Reykv. (JakM), og með þeim formála, að beinast liggur við að líta svo á, að ekki sje ætlast til að beita neinum höftum, nema þá ef til vill á óþarfa. Annars er jeg á sömu skoðun og hæstv. forsrh. og hæstv. fjrh., að innflutningshöftin sjeu neyðarúrræði. En hinsvegar sýnast mjer tímarnir nú svo örðugir, að afsakanlegt sje að grípa til neyðarúrræðanna. Og sjerstaklega virðist mjer rjett að taka tillit til þess, sem báðir bankarnir halda nú fram einum rómi, að einasta leiðin til þess að hækka gengi krónunnar sje að draga úr innflutningnum. Annars hefir bönkunum verið gefið það að sök, að þeim væri um það að kenna, hvað gengið væri lágt á íslensku krónunni.

Í þessu sambandi virðist mjer rjett að taka það fram, að bankarnir hafa báðir á síðasta ári varið stórfje til þess að halda uppi gengi krónunnar. Þetta mun nema um 700 þús. kr. hjá báðum bönkunum. Annars hefir margt og mikið verið rætt um það, hvernig laga skuli gengi krónunnar, en jeg hygg, að til þess sje aðallega ein leið, og hún er sú, að bæta fjárhag þjóðarinnar. En vissasta leiðin til þess er að draga úr eyðslunni.

Hæstv. fjrh. hyggur, að eyðslan minki sökum verðtollsins á miður þörfum varningi, en það tel jeg mjög vafasamt. Þeir, sem nóga peninga hafa, munu kaupa vörurnar alveg eins fyrir því, þó 20% tollur sje lagður á þær. Það má því búast við, að eyðslan haldi áfram, ef árgæskan eykst og fólkið fær fje í hendur sínar til þess að eyða. Nú eru allar horfur á einmunagóðu ári, en þetta ár þarf að nota til þess að bæta fjárhaginn, en það væri raunalegt, ef ágóði ársins lenti enn á ný í eyðsluhítinni. Það væri því rjettara að stöðva eyðsluna heldur en ýta undir óhófið, og spurningin er, hvort höftin, þó leið sjeu, sjeu ekki eina leiðin.

Jeg ætla svo ekki að fjölyrða meir um þetta, en jeg vona, að það lái mjer enginn, þó að jeg hafi viljað fara nokkrum orðum um ástandið yfirleitt og að gefnu tilefni hafi sýnt fram á, að hin nýja stjórn, sem allmjög hnýtir að þeirri gömlu, hafi ekkert gert í fjármálunum annað en það, sem byrjað var á af gömlu stjórninni.