27.02.1924
Neðri deild: 9. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1049 í C-deild Alþingistíðinda. (2550)

35. mál, afnám kennaraembættis í hagnýtri sálfræði

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Eins og hv. þm. munu hafa tekið eftir, er komið fram í hv. Ed. frv. um sama efni. Það fer fram á að sameina prófessorsembættið í hagnýtri sálarfræði við landsbókavarðarstöðuna. Það er að nokkru leyti svipað þessu frv., þar sem það vill gera eitt embætti úr þessum tveim og spara þannig kostnaðinn við annað embættið, en vill þó halda prófessorsembættinu við. En frv. mitt fer fram á, að það verði lagt niður. Og á það legg jeg áherslu. Það er ekki tilætlun mín að leggja stein í götu þessa heiðursmanns, sem hlut á að máli, að hann geti orðið forstöðumaður landsbókasafnsins. Það skyldi gleðja mig, ef hann gæti komist í góða stöðu aftur sem allra fyrst. Það er ekki af löngun til þess að skerða tekjur hans eða svifta hann atvinnu, að jeg ber fram þetta frv., heldur til þess eins að reyna að draga úr útgjöldum ríkissjóðs.

Til þess er ætlast, að tekjur landsins nemi rúmum 8 milj. kr. á þessu ári. Það er kunnugt, að megnið af þessum tekjum fæst með tollum og sköttum. Skattabyrðin er nú orðin það há, að ekki vantar mikið á, að hún nemi 100 kr. á hvert mannsbarn í landinu. Þessi byrði er svo þung, að efnaðar þjóðir með blómlegum atvinnuvegum og margbrotnum mundu telja erfitt að rísa undir. Þeir, sem þekkja til atvinnuhátta vorra í samanburði við annara þjóða, mundu fara nærri um, hvort einhverjir gjaldendur þessarar þjóðar muni ekki þurfa að taka nærri sjer til þess að greiða það, sem þeim ber. Um það þarf ekki að deila. Það er fullvíst, að sje skattafúlgan til opinberra þarfa borin saman við allar tekjur þjóðarinnar, er hún komin langt fram úr því, sem erlendir fræðimenn (hagfræðingar) með margra alda reynslu fyrir augum, telja hæfilegt.

Mjer kæmi það ekki á óvart, þó að niðurstaðan yrði sú, að mikið vantaði á, að tekjur landsins næmu því á þessu ári, sem ráð er fyrir gert í fjárlögunum. Jeg hygg, að menn þurfi ekki að vera í vafa um, að ógerlegt er að ætla að fá meiri tekjur með því að íþyngja þjóðinni enn frekar en orðið er með sköttum.

Þó að tilraun væri til þess gerð, býst jeg við, að hún mundi bera lítinn árangur. Það væri ekki til annars en að blekkja sjálfan sig að reyna þá leið.

Þá skal jeg drepa stuttlega á útgjöld landsins, hvers eðlis þau eru. Mestum hluta þeirra er þannig varið, að ekki verður komist hjá að greiða þau, nema landslögum sje breytt að mun. Það er ekki fjarri því, að 5 milj. kr. gangi til embættismannahalds og starfsmanna, og því nær 2 milj. kr. fara í vexti og greiðslur af skuldum. Þetta tvent nemur því alt að 7 milj. kr. á ári hverju.

Svo sem kunnugt er, höfum vjer einungis tvennskonar atvinnuvegi hjer á landi, landbúnað og sjávarútveg. Annar atvinnurekstur er svo smávægilegur, að ekki tekur því að telja hann fram, þegar rætt er um atvinnuvegi þjóðarinnar í heild sinni. Báðir þessir aðalatvinnuvegir vorir standa nú mjög höllum fæti. Það er ekki til neins að dylja það, að þeir búa nú við þröngan kost og eiga erfitt uppdráttar, vegna mikilla skulda og óhagstæðrar verslunar. Atvinnuvegir vorir þyrftu ekki að bíða mikinn hnekki til þess að tekjur landsins verði hvergi nærri eins miklar og áætlað er, jafnvel ekki einusinni 7 milj. kr. Og þó að þær yrðu nú um 7 milj. kr., hrekkur það tæpast til þess að greiða af skuldum og standa straum af embættismannahaldi ríkisins, og síst, ef gengi peninga vorra lækkar frá því, sem er. Jeg hygg því, að ekki muni af veita, þó að reynt sje nú að draga úr kostnaðinum við búskap landsins svo sem auðið er, og hefði gjarna mátt gera það fyr. Til þess eru fleiri leiðir en ein, en útlitið er það ískyggilegt, að ekki veitir af að fara þær allar. Það má leggja hömlur á innflutning þess varnings, sem þjóðin getur komist af án, og fara svo langt í því efni sem fært er með nokkuru móti. Nú er varla ráðist í nokkrar verklegar framkvæmdir, svo að ekki verður sparað á þeim lið. En allir sjá, hve mikil hætta þjóðinni er búin, ef verklegar framkvæmdir falla alveg niður. Þá verður hjer um engar framfarir, heldur kyrstöðu að ræða, en kyrstaða er beinlínis afturför. Þá er ein greinin, sem draga má úr kostnaði ríkissjóðs með, eins og þetta frv. fer fram á, og það er embættismannahaldið. Fleiri frv. eru fram komin í þá átt á þessu þingi. Það eru ekki ýkjamiklar upphæðir, sem sparast á hverjum einstökum lið, en safnast, þegar saman kemur. Og ef jeg hefði tíma til að íhuga betur embættakerfi landsins, mundi eg fús á að ganga lengra. En til þess þarf mikinn kunnugleika, og hygg jeg, að engum einstökum þingmanni muni vinnast tími með öðrum þingstörfum til þess að búa frv. um nýja embættaskipun svo úr garði, að frambærilegt væri. Jeg hygg, að það verði verkefni þeirrar stjórnar, sem fer með völd til næsta þings, að undirbúa það mál. En ef menn sjá nú leið til að draga, þó ekki sje nema að einhverju leyti, úr þessum kostnaði, er bein skylda hv. þm. að gera það sem þeir geta í því efni.

Um þetta embætti, sem hjer ræðir um, er jeg sömu skoðunar sem þá, er það var stofnað, að það sje alls ekki nauðsynlegt. Ekki vegna þess, að jeg telji ekki þann heiðursmann, sem í hlut á, starfsaman og hæfileikamann, heldur af því, að jeg álit þetta starf þess eðlis, að þjóðin geti verið án þess sjer að skaðlitlu eða skaðlausu. Vjer höfum aldrei haft, og allra síst nú, ráð á því að hafa fleiri starfsmenn en þjóðin kemst minst af með. Jeg skal ekki að fyrra bragði víkja að því, á hvern hátt þetta embætti var stofnað, en mun ef til vill gera það síðar, ef mjer verður gefið sjerstakt tilefni til þess. En jeg skal nú stuttlega minnast á, hvernig starfi heimspekisdeildarinnar við háskólann hefir verið varið, og fer jeg þar eftir árbók háskólans.

Veturinn 1915–16 voru í deildinni 6 kennarar, en enginn nemandi, 1916–17

7 kennarar og 1 nemandi, 1917–

18 8 kennarar og 6 nemendur, 1918–19

8 kennarar og 8 nemendur, 1919–20

6 kennarar og 5 nemendur, 1920–21

6 kennarar og 9 nemendur og 1921–22

6 kennarar og 10 nemendur. Má af þessu sjá, þótt kennararnir hafi gert skyldu sína í því að fræða nemendur, eftir að þeir urðu nokkrir, hve fáir hafa notið þessarar kenslu.

Það er að vísu rjett, að auk kennarastarfsins halda þessir kennarar fyrirlestra fyrir almenning. En jeg get ekki sjeð, að manni þeim, sem hjer á hlut að máli, sje bægt frá að fræða almenning, ef hann hefir löngun til þess, þó að þetta embætti verði lagt niður. Auk þess má geta þess, að einn kennarinn býr nemendur annara deilda háskólans undir próf í forspjallsvísindum, en það er sama starfið sem prestaskólinn leysti af hendi áður en háskólinn var stofnaður.

Þó að það sje vafalaust mjög gott og gagnlegt, sem þessi heiðursmaður hefir að bera fyrir nemendur sína, er það ljóst, að vjer höfum ekki efni á að halda við embætti, sem er ekki notað meira. Jeg er sannfærður um, að vjer getum notið hans ágætu hæfileika til annarar starfsemi, sem meiri þörf er fyrir. Það var meðal annars vegna fullvissu minnar í því efni, að jeg leyfði mjer að flytja þetta frv.

Jeg skal svo ekki fjölyrða um þetta mál, en leyfi mjer að vænta þess, að frv. verði vel tekið og vísað til allshn. að lokinni þessari umræðu.