29.02.1924
Neðri deild: 11. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1083 í C-deild Alþingistíðinda. (2557)

35. mál, afnám kennaraembættis í hagnýtri sálfræði

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Það hefir satt að segja lítið nýtt komið fram í málinu við þessar umræður, eins og við var að búast. Má óhætt telja hina síðari ræðu hv. þm. Dala. hóflegri en þá fyrri. Hefði verið ósköp auðvelt að ræða þetta mál, án þess að öllu því væri blandað inn í, sem orðið er, en á því á hann sök. Það er altaf hægt verk að reyna að klóra yfir og snúa út úr því, sem sagt er, eins og háttv. þm. Dala. gerði nú. Háttv. þm. kvað mig ekki hafa sýnt, hver sparnaðarmaður jeg væri. Jeg hefði ekki sýnt sparnað í öðru en þessu máli. Háttv. þm. (BJ) fer þar með ósannindi; sýna það þingskjölin, og það veit hver sá, sem fylgst hefir með málunum.

Tölu nemenda heimspekisdeildarinnar tók jeg úr árbókunum, og tók það fram, að auk þeirra, er jeg taldi, hefði einn kennarinn haft það verk með höndum að undirbúa nemendur annara háskóladeilda undir próf í forspjallsvísindum. Þarf ekki hv. þm. (BJ) að hreykja sjer af því, að hann viti þarna betur. Er það hálfaumingjalegt að ætla sjer að bjargast við tóman útúrsnúning og ósannindi á Alþingi. En það er ekki meira en það sem tíðkast hjá hv. þm. (BJ), og myndi jeg gefa honum meira minni og skilning heldur en hann hefir, ef það væri á mínu valdi, því að jeg hefi raun af honum.

Ræða hans var aðeins góð lýsing á sálarástandi hans; er honum það ekki sjálfrátt, og verður því að fyrirgefast og maður að hegða sjer eftir því, og mun jeg reyna að gera það framvegis.

Jeg er búinn að drepa á þau atriði sem hv. þm. (BJ) fetti fingur í, og sje ekki ástæðu til að fjölyrða um þau frekar. En viðvíkjandi þeim eftirlaunum, sem hann var að tala um að hefði átt að veita þessum manni, sem jeg nefndi, þá voru það alls engin eftirlaun, sem um var að ræða. Það var aðeins styrkur. Háttv. þm. getur sjeð þetta í Þingtíðindum, sem jeg hefi hjer fyrir framan mig. Það átti að koma á 15. gr. fjárl. Hv. þingm. segir, að hann hafi ekki vitað nema að þessi maður hafi átt sök á því, að honum hafi verið vikið frá, og hann hafi þessvegna verið á móti. En jeg verð nú að segja, að fyrst hann ekki vissi að maðurinn hafði gert eitthvað fyrir sjer, hefði farið betur á því, að háttv. þm. hefði verið með styrknum til þessa manns, en það gerði hann ekki, heldur varð hann til að fella hann. Jeg fyrir mitt leyti vil heldur, að jafnvel þó að maðurinn máske að einhverju leyti hefði unnið til þess að vera vikið frá starfanum, að þá væri ekki kona hans og börn látin gjalda þess. En hv. þm. lítur nú öðruvísi á það mál, þegar það er ekki kona og börn embættismanna. Það er hans göfugmenska.

Um þakklæti þjóðarinnar við embættismenn sína ætla jeg ekki að tala. Hann metur það eftir því sem hann er maður til. Hann sagði, að hún svelti alla embættismenn; tel jeg það ekki svaravert.

Hv. þm. drap á sparnaðinn, sagði, að jeg vildi spara eina krónu af hverjum 1000. Ef aðeins er tekið tillit til þessarar einu till., þá er það rjett, en svo oft má spara 1 kr., að 500 kr. spöruðuðust af hverjum 1000. En ef aldrei er byrjað, verður heldur aldrei neinn sparnaður. Það var á hv. þm. að heyra, að sú skylda hvíldi á þjóðinni að sjá hverjum lærðum manni farborða, en slíkt mundi henni um megn. Annars mótmæli jeg því algerlega, að þjóðinni beri nokkur skylda til þess. Hv. þm. (BJ) drap á, að hver ætti að starfa að því, er hugur hans hneigðist helst að. Já. Best væri, að hver maður væri á rjettum stað, að allir góðir starfskraftar fengju að njóta sín þar sem þeim væri hentast, en fátæk þjóð verður oft að sætta sig við að skipa mönnum í annað rúm en þeir kusu helst. Verður hver að sníða sjer stakk eftir vexti.

Sje jeg ekki ástæðu til að gera það frekar að umræðuefni, er hv. þm. (BJ) sagði. Að þetta væri jafnmikill sparnaður og að svelta hundraðasta hvern hund annan hvern dag, má hann sjálfur flagga með, sjer til ánægju.