29.02.1924
Neðri deild: 11. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1085 í C-deild Alþingistíðinda. (2559)

35. mál, afnám kennaraembættis í hagnýtri sálfræði

Ásgeir Ásgeirsson:

Þar sem óskað hefir verið eftir því, að nafnakall verði viðhaft, verð jeg að lýsa afstöðu minni til málsins. Jeg, og víst margir fleiri, óska þess ekki, að frv. sje afgreitt í þeirri mynd, sem það nú hefir, en vilja þó gjarnan láta vísa því til nefndar. Vildi jeg þá óska, að því verði vísað til mentmn., en ekki til allshn., því mjer virðist sem það snerti mentamálin öllu meir en fjárhaginn. Býst jeg við, að flestir sjeu sammála um, að eitthvað megi spara með þessu móti, en leggi hinsvegar kapp á, að Guðmundur Finnbogason verði í engu minkaður. Margir óska þess, að hann hafi virðing eina af máli þessu. Því er það mjög óheppilegt, að menn skuli verja hann með þeim hætti, sem gert er. Að gera flm. þær getsakir, að þeim gangi aðeins blóðþorsti og ofsóknarhugur til að bera fram frv., er þeim, er slíkt mæla, sjálfum til hneisu, en um leið er Guðmundi Finnbogasyni gerður bjarnargreiði.

Mörg störf eru það, sem ríkið þarf að láta vinna og Guðmundur Finnbogason er vel fallinn til að rækja, og ætla jeg, að vel megi finna þá lausn á málinu, sem bæði sparnaðarmenn og próf. G. F. mega vel við una. Jeg hafði ætlað mjer að bera fram annað frv., þar sem farið væri fram á, að embætti próf. G. F. væri sameinað fræðslumálastjóra- eða landsbókavarðarstarfinu, þá er annarhvor ljeti af störfum. En jeg áleit heppilegra, að nefnd athugaði fyrst frv. og kæmi síðan fram með þær till. eða aðrar, er bestar þættu. Jeg óska þess, Guðmundar vegna, að málið verði nú vel afgreitt með þeim hætti, svo það gangi ekki aftur á hverju þingi, eins og verið hefir.

En því vildi jeg sameina þessi embætti, sem jeg hefi nefnt, að G. F. er höfundur fræðslufyrirkomulags þess, sem nú er, og fræðslumálastjórinn skipaður eftir hans tillögum. Sje það meining hv. þm. Dala., að það sje hið versta verk, sem G. F. hefir unnið í fræðslumálum, þá gerir hann (BJ) minna úr G. F. en nokkur annar. Ef G. F. hefir með tillögum sínum um fræðslumál, sem hann hefir sjerstaklega kynt sjer, valdið milljóna tjóni, eins og hv. þm. Dala. (BJ) virðist telja, hvers má þá af honum vænta í vinnuvísindum, sem hann hefir að mörgu leyti ljeleg skilyrði til að stunda. Andleg störf hafði G. F. ætlað sjer, en ekki verkleg. Alkunnugt er það, að G. F. ætlaði sjer að verða heimspekingur, en ekki býst jeg þó við, að neinn, nema hv. þm. (BJ), ætli, að síldarútvegur á Siglufirði og sláttur upp í sveit sjeu heimspekiefni. Það er fjarstæða að vera að fjargviðrast út af því, að reka eigi G. F. frá því, sem hann jafnan hafi ætlað sjer að vinna — að verið sje að skera úr honum hjartað. Það er svo fjarstætt, að hjer er einmitt honum ætlað að vinna þau störf, sem hann bjó sig sjerstaklega undir og hefði valið sjer að lífsstarfi, ef hann hefði verið sjálfráður um það. Heppilegt væri, að G. F. hefði fyrirlestraskyldu við háskólann jafnframt fræðslumála- eða bókavarðarstarfseminni. Það er ekki að búast við, að heimspekisdeild vor sje jafnauðug og samskonar deildir við aðra háskóla. Nemendur eru ekki svo margir, að hægt sje að kosta fjölda af kennurum, en til að bæta úr því, mætti fela helstu fræðimönnum, sem andlegum embættum gegna hjer í bæ, nokkuð af kenslunni. Hefði bæði háskólinn og þeir gagn af því. Háskólanum bættust kenslu- og starfskraftar, gæti náð þeim tilgangi sínum að vera framar öðrum háskólum í íslenskum fræðum, og embættismennirnir sæktu og þangað líf og fjör, svo meira gagn yrði að þeirra sjerstaka embættisstarfi.

Jeg skal ekki ræða nánar um málið að þessu sinni, en gera það að tillögu minni, að frv. verði vísað til mentmn., í þeirri von, að það verði á síðan afgreitt á þann veg, sem bæði Alþingi og Guðmundur prófessor Finnbogason mega vel við una, og að girt verði fyrir, að þetta verði eilíft þrætumál, er gangi aftur á hverju þingi.