22.02.1924
Neðri deild: 6. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1089 í C-deild Alþingistíðinda. (2563)

28. mál, sameining prófessorsembættis í guðfræði við biskupsembættið

Flm. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg þarf ekki mörg orð til þess að fylgja þessu frv. úr garði, því það er enginn nýr gestur hjer í hv. deild. Eins og hv. deildarmönnum mun kunnugt, hefir oftar en einusinni komið fram frv. þess efnis að spara útgjöld ríkisins á þessum lið.

Á þinginu 1891 kom Skúli heitinn Thoroddsen fram með frv. þess efnis að leggja niður biskupsembættið. Vildi hann láta fela prófastinum í Kjalarnesþingum að gegna störfum hans. Það frv. var felt þá á þinginu. í fyrravetur kom svo stjórnin fram með frv. þessa efnis. Var það svipuð leið, sem hún valdi, — að fela vígslubiskupum og próföstum störf biskups. Þetta frv. var borið fram í Nd. og náði ekki heldur fram að ganga. Skal jeg gjarnan taka það fram, að jeg myndi ekki hafa treyst mjer til að aðhyllast þessa leið og fella biskupsembættið niður. Því hjer er óneitanlega um að ræða elsta, virðulegasta og söguhelgasta embætti landsins.

Sú leið, sem jeg hefi valið, er að fela biskupinum kenslustörf við háskólann, og á þann hátt að spara þar kennarakrafta. Hallaðist allshn., sem hafði málið til meðferðar í fyrra, á þá sveifina, að sparnaðinum yrði hagað á slíkan hátt. Er sú hugmynd ekki heldur nein ný bóla, því á þinginu 1903 fluttu þeir Lárus H. Bjarnason og sjera Magnús Andrjesson frv. þess efnis, að sameina biskupsembættið og forstöðu prestaskólans. Sætti málið mjög rækilegri meðferð í Nd. í nefnd þeirri, sem hafði það til meðferðar, voru, auk þessara tveggja manna, sjera Eggert Pálsson, Jóhannes Jóhannesson og Pjetur Jónsson. Varð nál. einróma og svo vel rökstutt, að jeg vildi gjarnan, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp úr því lítinn kafla þar segir svo:

„Þegar nú litið er til þess, að í biskupsembættið mun æfinlega hjer eftir eins og hingað til verða skipaður einhver færasti maðurinn meðal guðfræðinga landsins, þá teljum vjer það engum efa undirorpið, að honum væri ekki ofvaxið að gegna ásamt biskupsembættinu forstöðuembætti prestaskólans, ef hann væri laus við öll þau framangreind skristofustörf, er vjer viljum leggja frá biskupsembættinu.“ Hjer er vitnað til stiftsyfirvaldastarfa og fleiri, sem nú er lögð niður. Hjer segir enn:

„Störf hans yrðu varla til muna meiri eða erfiðari en nú, en þau yrðu honum geðfeldari. Þá yrði starfsemi hans meir vísindaleg og fræðandi, og sú vinna yrði honum ánægjulegri en að vera neyddur til að verja mestum hlutanum af tíma sínum til að rita embættisbrjef og eiga við skýrslur og önnur slík skrifstofustörf.

Alls eigi verður það heldur talið ósamboðið tign biskupsdæmisins, að hann eigi einhvern þátt í að fræða prestsefnin og búa þau undir stöðu þeirra. Hann gæti varla annað veglegra og mikilvægara starf unnið. Og það er augljóst, að á þann hátt gæti hann helst haft góð áhrif á nemendur prestaskólans. Þá yrði hann gagnkunnugur nemendunum, og milli hans og þeirra gæti myndast náið vinsemdarsamband, er dagleg umgengni og viðkynning skapar.

Þessi kunnugleiki biskupsins á prestsefnum og prestum væri þýðingarmikill yfir höfuð, og meðal annars sjerstaklega þá, er hann ætti að gera tillögur við brauðaveitingar.“

Málið kom svo til umr. í Nd. og var samþ. með 18:3 atkv., en síðan felt í Ed.

Jeg hefi sárafáu við þetta ítarlega nál. að bæta. Jeg skal þó taka það fram, að störf biskups eru nú talsvert minni en þá, er þetta mál var á döfinni. Jeg vil einnig minna á það, að þegar fyrirrennari núlifandi biskups tók við embætti, þá óskaði hann þess að hafa kennarastörf á hendi jafnframt í prestaskólanum.

Jeg hefi látið þetta vera mitt fyrsta skref hjer á hv. Alþingi, sökum þess, að jeg er talsvert kunnugur biskupsstarfinu. Jeg kyntist því þau ár, sem jeg var á skrifstofu biskups, og veit því með vissu, að sparnaður þessi er mætavel framkvæmanlegur.

Að endingu vil jeg svo geta þess, að jeg ætla mjer ekki að halda fast í einstöku atriði frv., heldur vera fús til samkomulags, ef aðeins höfuðatriðið nær fram að ganga.

Vænti jeg svo, að frv. gangi óhindrað til 2. umr., og legg það til, að því verði vísað til hv. allshn.