22.02.1924
Neðri deild: 6. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1092 í C-deild Alþingistíðinda. (2564)

28. mál, sameining prófessorsembættis í guðfræði við biskupsembættið

Magnús Jónsson:

Jeg skal ekki teygja tímann með því að tala lengi að sinni. Þó langaði mig til að hreyfa nú þegar andmælum gegn þessu máli.

Hæstv. forsrh. (SE) sagði í fyrra, er frv. kom fram um að leggja niður biskupsembættið, að ekki hefði verið kyrt um embættið síðustu árin. Það lítur sannarlega út fyrir, að hv. Alþingi ætli að sjá um, að svo verði áfram. Málið er nú borið fram í nokkuð annari mynd en það var í fyrra, en í raun rjettri er munurinn þó ekki eins mikill og virðist fljótt á litið. Því þó að svo sje að orði komist í frv., að biskupi skuli falin kensla við háskólann, þá býst jeg við, að raunin yrði sú, að starfið yrði í vitund almennings kent við háskólakensluna, því þar kæmi daglega til að bera meira á þessum manni heldur en á biskupsskrifstofunni. Myndu menn því alment líta svo á, að þar væri háskólakennari, sem hefði aukreitis á hendi biskupsstörf, vígslur og vísitasíur.

Jeg er því mótfallinn þessu frv. af sömu ástæðum og í fyrra. En svo bætist auk þessa við enn ein ástæða, og hún er sú, að með þessu yrði að breyta háskólalögunum. Þar er sem sje skýrt ákveðið, að kennaraembætti við háskólann skuli ekki breyta, án þess að hafa fyrst leitað álits hlutaðeigandi háskóladeildar. Er þar um að ræða mjög þýðingarmikið atriði, sem sjerhver háskóli leggur mikið upp úr. Því þetta er einmitt sá varnarmúr, sem háskólamir hafa reist um vísinda- og kenningafrelsi sitt. Hjer er um að ræða beina árás á það frelsi. Biskupinn er vegna stöðu sinnar mjög bundinn, að því er trúarmál snertir — ef til vill á margar lundir einhver ófrjálsasti maðurinn í landinu. Hann verður að haga sjer mjög varlega í þeim sökum, vegna hagsmuna kirkjunnar, og sýnir reynslan það ljóst, hve skoðanafrelsi hans eru settar ríkar skorður. Skal jeg t. d. geta þess, að Einar Arnórsson hefir komist svo að orði í einu rita sinna, að biskup yrði að vera evangelisk-lútherskur, þ. e. hann hefði ekki trúarbragðafrelsi, nema víkja úr stöðu sinni, og mun öllum finnast það eðlilegt. En hvers virði er nú kenningarfrelsi fyrir háskólann? Sumir menn ætla, ef til vill, að það sje ekki mikils virði. En svo er ekki. Sýnir sagan þetta ljósast. Það hafa verið þeir tímar, að menn máttu ekki halda því fram, að jörðin snerist, og lá við dauðarefsing. Jeg minnist þess nú, hvernig Björn heitinn Ólsen komst að orði í hinni ágætu ræðu sinni við setningu háskólans. Háskólinn var þá barn þjóðarinnar, þótt hann væri lítill. Fáum mun hafa komið það til hugar þá, að móðirin myndi nokkrum árum síðar fara að hyggja á það að bera þetta barn sitt út. Af því að margt er svo gullvel sagt í þessari ræðu B. M. Ólsens, þá langar mig til þess, með leyfi yðar, hæstv. forseti, að lesa upp örfáar setningar. Þar segir svo:

„Reynslan hefir sýnt, að fullkomið rannsóknarfrelsi og fullkomið kenslufrelsi er nauðsynlegt skilyrði fyrir því, að starf háskóla geti blessast. Á miðöldunum voru oft háskólar settir á stofn við biskupsstóla eða klaustur, og gefur að skilja, að klerkavaldið, sem rjeð slíkum stofnunum, var þröskuldur í vegi fyrir frjálsum vísindaiðkunum. Síðar, einkum eftir reformationina, settu konungar eða aðrir stórhöfðingjar oft háskóla á stofn og lögðu fje til þeirra. Þóttust þeir því hafa rjett til að leggja höft á rannsóknarfrelsi og kenslufrelsi háskólanna, og hafði það hvervetna hinar verstu afleiðingar. Frjáls rannsókn og frjáls kensla er eins nauðsynleg fyrir háskólana og andardrátturinn er fyrir einstaklinginn.“

Þetta sagði Björn Ólsen um kenningar- og rannsóknarfrelsi háskólans, og talaði hann þar af mikilli reynslu og þekkingu á því efni. Þessu rannsóknar- og kenningarfrelsi álít jeg stofnað í hættu, verði þetta frv. samþykt, ekki síst, ef það fyrirkomulag helst óbreytt, að biskup verði kjörinn af prestum. Má þá búast við, að sú stefna, sem í svipinn er ríkust og mest bolmagnið hefir, komi sínu biskupsefni að og setji hinum nýkjörna biskupi um leið strangar skorður um það, hvað hann skuli kenna.

Hv. flm. (TrÞ) vitnaði í nál. meirihl. allsherjarnefndar í fyrra, þar sem drepið er á, að fela megi biskupi kenslu nokkra í háskólanum. Þar sem jeg var í þessum meirihluta, skal jeg nú gera grein fyrir, hvað fyrir honum vakti.

Í nál. allshn. í fyrra segir svo, með leyfi hæstv. forseta: — „Þá hefir nefndin athugað það, hvort ekki mundi vera unt að fela biskupi kenslu nokkra í guðfræðideild háskólans. Felst meirihluti nefndarinnar á, að það sje vel gerlegt, en er þó ekki sammála um, hversu víðtækt það ætti að vera, enda getur ekki komið til mála að bera slíkt fram í sambandi við það frv., sem hjer er um að ræða, heldur yrði til þess að gera breyting á háskólalögunum, og lætur nefndin því útrætt um það mál.“

Jeg get sagt fyrir mig, að jeg sje ekkert til fyrirstöðu því, að biskup taki þátt í kenslunni í guðfræði, og þá helst, að kennimannleg guðfræði (pastoraltheologi) verði tekin undan deildinni og falin biskupi. Þetta er gert víða. Kennimannleg guðfræði, svo sem barnaspurningar, ræðugerð o. fl., er yfirleitt ekki talin heyra til háskólanámi og guðfræðilegum vísindum. Það er ekki talið rjett að neyða þá menn til að læra þetta, sem einungis vilja verða kandidatar í guðfræði, en ætla ekki að gegna prestlegum embættum. Hjer á landi hefir þessa ekki verið þörf, því að yfirleitt hefir það verið takmark guðfræðinemenda að verða prestar að loknu námi. Málið horfir öðruvísi við, ef þetta er ekki gert til þess að fækka guðfræðikennurum í sparnaðarskyni, heldur í þeim tilgangi, að biskup geti kynst prestsefnum á þennan hátt. Þó er jeg ekki viss um, að þörf sje á þessari breytingu.

Hv. flm. (TrÞ) gat um, að biskupsstörfin væru lítil. Jeg er ekki jafnkunnugur honum um þessi störf, þar sem jeg hefi aldrei verið starfsmaður hjá biskupi, en svo hafa þau komið mjer fyrir sjónir sem þau geti verið mikil eða lítil, eftir því sem verkast vill. Skrifstofuhald er vafalaust ekki svo sjerlega umfangsmikið. En um önnur störf hans má sjálfsagt segja svipað sem um hákólakenslu, að þau geti verið eins mikil og honum sýnist sjálfum. Það er hægt að komast sæmilega af án þess að leggja mikla vinnu í þau, en þau aukast, eftir því sem meiri rækt er við þau lögð. Á sama hátt mætti eins spyrja um, hvort það væri mikið verk að vera bóndi. Menn geta búið vel, og hafa ýmsir búið vel, þó að þeir drepi aldrei hendi í kalt vatn, og þó getur búskapurinn fengið mönnum ærið að starfa, ef þeir vilja stunda hann af kappi.

Það er trúa mín, að meðan hjer er lögboðin þjóðkirkja, geti umsjón hennar verið ærið verk fyrir biskup, jafnvel þó að honum væri ekki ætluð nein skrifstofustörf, svo sem nú er, og að hann geti unnið vel fyrir biskupskaupi sínu, meðan menn annars leggja nokkuð upp úr þessum málum. Annars hefi jeg stundum furðað mig á afstöðu Alþingis til kirkjumála. Það er eins og það hafi stundum viljað fara bil beggja og styðji kirkjuna aðeins með hangandi hendi. En eins og nú er komið þessum málum, er ekki nema um tvent að velja, afnema þjóðkirkjuna með öllu, ef menn telja hana einskisverða, eða gera sæmilega til hennar og halda hana í heiðri. Fer það eftir skoðunum hvers eins á gildi trúarbragða fyrir þjóðina, hvorn hann vill upp taka. En jeg skil ekki afstöðu þeirra manna, sem sneiða vilja utan af kirkjunni, reita eitt og eitt hár úr ham hennar, eins og þetta frv., og önnur lík, fara fram á.