22.02.1924
Neðri deild: 6. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1096 í C-deild Alþingistíðinda. (2565)

28. mál, sameining prófessorsembættis í guðfræði við biskupsembættið

Flm. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg þarf ekki að gera nema fáar athugasemdir við ræðu hv. 4. þm. Reykv. (MJ). Skal jeg þá fyrst mótmæla því, er hv. þm. sagði, að með þessu skipulagi yrðu biskupsstörfin aukastörf og biskupsembættið hyrfi í raun og veru. Frv. leggur til að leggja niður prófessorsembættið, en ekki biskupsembættið. Jeg hygg, að biskupsembættið verði aðalstarfið eftir sem áður, vegna sögu þess og þeirrar virðingar, sem jafnan hefir verið borin fyrir því. Það er og misskilningur, að breyta þurfi lögum háskólans í nokkru, þó að þetta fyrirkomulag verði tekið upp. Prófessorsembættið verður beinlínis lagt niður og biskup annast kensluna sem aukakennari, en verður ekkert háður háskólanum.

Þá talaði hv. þm. margt um nauðsyn háskólans og kenningar- og rannsóknarfrelsi. Jeg er algerlega sammála honum í því efni og hinum frægu ummælum Bjarnar Ólsens. En hitt get jeg með engu móti samþykt, að biskup sje ófrjálsasti maður landsins, og að háskólinn myndi missa kenningarfrelsi sitt, þó að þessi „ófrjálsi“ maður annaðist þar kenslu. Mjer þykir hv. þm. skjóta hjer yfir markið og gera of lítið úr sjálfum sjer og samkennurum sínum, ef hann er hræddur um, að þeir muni þá draga dám af biskupi og glata kenningarfrelsi sínu. En jeg vil einnig mótmæla þeim ummælum, að biskupinn sje ófrjálsasti maður landsins. Vjer höfum átt þá biskupa, og þá ekki allfáa, er hafa sýnt það ljóslega, að þeir hafa ekki talið embætti sitt það haft á sjer, að þeir þyrðu ekki að láta skoðanir sínar í ljósi.

Hv. þm. gat þess, að biskup mætti vel hafa á hendi kenslu í kennimannlegri guðfræði, og það var einmitt þetta, sem jeg hafði sjerstaklega í huga. En ef þessu er ljett af ekki umsvifameira kenslustarfi en sem nemur um klukkustundarkenslu á dag, þá mánuði, sem kent er, tel jeg af því geta leitt, að þann kennarastól mætti leggja niður.

Hv. þm. kvað biskupsstörfin geta verið eins mikil eða lítil og verkast vildi. Þetta get jeg fallist á. En þá vil jeg spyrja: Ef auka þarf biskupsstörfin, liggur þá ekki beinast við að gera það á þann hátt, að hann taki meiri þátt en áður í undirbúningi prestsefna undir lífsstörf þeirra. Jeg hygg, að í þessu efni muni flestir geta tekið undir álit þingnefndarinnar fyrir 11 árum, sem jeg mintist á.

Þó að það komi ekki þessu máli við, skal jeg víkja að því, er hv. þm. kallaði mig stuðningsmann hæstv. stjórnar. Jeg skil ekki, hvaðan honum kemur sú vitneskja. Jeg hugði, að hv. þm. mundi fullkunnugt um, að þótt jeg telji mig að nokkru leyti stuðningsmann stjórnarinnar, er jeg alls ekki stuðningsmaður hæstv. forsrh. (SE).