01.03.1924
Neðri deild: 12. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1099 í C-deild Alþingistíðinda. (2569)

42. mál, einkasala á áfengi

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Frv. þetta á þskj. 43 hefi jeg leyft mjer að bera fram, ásamt hv. 2. þm. Árn. (JörB). Gerum við það í þeirri von, að því byrji betur að þessu sinni en þegar það kom fram á síðasta þingi. Það er að uppistöðunni sama frv. sem þá, en af því hafa verið sniðnir nokkrir þeir agnúar, sem þá þóttu á því vera. Auk þess hefir frv. verið aukið frá því í fyrra, og á jeg þar við breytinguna á 7. gr. laga frá 1921, um einkasölu á áfengi.

Það er von mín, að þó erfitt eigi uppdráttar ýms þau frv., sem fara fram á fækkun embætta eða sameiningu opinberra starfa, þá taki það síður til þessa frv., sem ekki hróflar við neinum erfikenningum um helgi embætta. Áfengiseinkasalan er ung stofnun og væntanlega eru starfsmenn hennar ekki ráðnir til langs tíma, nema forstjórinn. Uppsögn annara starfsmanna hennar ætti ekki að koma illa við neinn.

Öllum má ljóst vera, að þessi tvöfaldi verslunarrekstur ríkisins, tóbaks- og olíuverslun annarsvegar og vínverslun hinsvegar, er mun kostnaðarsamari en hann þyrfti að vera, ef hann yrði lagður undir eina stofnun. Því var að vísu haldið fram á síðasta þingi, að þessi vínverslunarrekstur væri svo umfangsmikill og svo mikið fje, sem í honum lægi, að það væri að minsta kosti afsakanlegt, jafnvel sjálfsagt, að gera hann að sjerstakri starfsgrein. Þessvegna er rjett að taka það fram, að meðan landsverslun hafði á hendi sölu á nauðsynjavörum, var það miklu umfangsmeiri verslunarrekstur en nú mundi verða, þó vínversluninni yrði bætt við hana.

Í greinargerð frv. er bent til mannahaldsins við áfengisverslunina, og þó jeg hafi ekki ítarlegar upplýsingar fyrir hendi um þetta atriði, þá mun þó fara nærri, að um 13 fastir starfsmenn sjeu nú við skrifstofu, búð og birgðastöð hennar, og auk þess nokkrir aðstoðarmenn með breytilegum launakjörum. Telst mjer svo til, að ekki sje of hátt reiknað, að kaup allra þessara manna nemi 100 þús. kr. á ári. Hinsvegar eru við landsverslun 11 fastir starfsmenn, og þó er þar um mun fleiri og margbreytilegri afgreiðslu að ræða, þar sem hún hefir viðskifti við allflesta kaupmenn og kaupfjelög á landinu, en áfengisverslunin skiftir á hinn bóginn aðeins við útibú sín og almenning hjer í Reykjavík. Er það því bersýnilegt, að hún ætti ekki að þurfa að hafa fleiri starfsmenn fasta. En hvað sem um það kann að vera, er það augljóst, að kostnaðurinn við afgreiðsluna og allan reksturinn yrði mun minni, ef þessi stofnun væri samtengd aðalverslun ríkisins. Nú er líka sú breyting á orðin síðan í fyrra, að vörubirgðir áfengisverslunarinnar hafa verið fluttar í Nýborg, birgðahús landsverslunar, og ætti því að liggja beinast við, að afgreiðsla beggja deildanna færi fram af sömu mönnum. Hvorki er hægt, nje heldur nauðsynlegt að svo komnu, að koma með nákvæma eða sundurliðaða áætlun um þann sparnað, sem af þessu myndi leiða, en miklar virðast mjer líkur til, að hann myndi nema 1/3 af launum fastra starfsmanna beggja stofnananna, sem nú munu vera 24, en gætu sennilega nægt 16. Jafnvel þótt mannahald sparaðist aðeins að ¼ þá væri mikið unnið.

Auðvitað mál er það, að með þessu móti yrðu einhverjir sviftir atvinnu sinni, eða atvinnuvon, en jeg geri ekki ráð fyrir, eftir því sem upplýst var á síðasta þingi, að samningar við þá sjeu því til fyrirstöðu, að hægt sje að segja þeim upp, því fæstir þeirra mínu ráðnir til langs tíma, og væntanlega geta þeir náð í atvinnu annarsstaðar við þjóðþarfara starf.

Að lokum skal jeg geta þess, að brtt. okkar flm. frv. við 7. gr. 1. frá 1921 er sprottin af því, að við höfum, eftir fengnum upplýsingum, komist að þeirri niðurstöðu, að sú undanþága frá álagningu á áfengi til lyfja, sem nefnd lög gera, er svo lítilfjörleg ívilnun fyrir sjúklinga þá, sem víns neyta eða lyfja með vínanda eftir læknaráði, að nær engu skiftir um verð þeirra. Bæði er það, að flestir nota mjög lítið áfengi í lyfjablöndun, og þó einhverjir notuðu t. d. 1 lítra til lyfja á ári, þá munar álagningin þar sáralitlu. Hinsvegar hefir það sýnt sig, að ríkissjóður biður mikinn halla af undanþágunni, þar sem hann fyrir hennar sakir afhendir læknum og lyfjabúðum alt áfengi án álagningar, hvort sem það svo er notað til lyfja eða ekki. Mjer hefir verið tjáð, að áfengiseinkasalan afhendi lyfjabúðunum vínanda fyrir 8 kr. lítra hvern, en þær munu aftur selja hann út fyrir 16 kr. til iðnaðar, og ef til vill nokkru dýrara til annara notenda. Og það mun vera á allra vitorði, að talsvert af vínanda þeim, sem læknum og lyfjabúður er afhentur til notkunar í lyf, fer alt aðrar leiðir. Jeg vil ekki koma með neinar ágiskanir um það, hvað þetta nemi miklu, en svo rífleg er skömtun vínanda til lækna, að sumir þeirra telja um of. Er þar vitanlega að ræða um nokkrar þúsundir lítra, sem ríkissjóði ber að njóta tekna af.

Jeg þykist þá ekki þurfa að taka fleira fram um þetta að sinni, en vil mælast til að málið sje látið ganga til fjhn. Það á þar heima, þótt því reyndar væri vísað til allshn. á síðasta þingi.