23.04.1924
Efri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 905 í B-deild Alþingistíðinda. (257)

1. mál, fjárlög 1925

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg get gerið skammorður. Ástæðan til þess, að jeg stóð upp, var sú, að hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) spurði, hvort stjórnin hefði tekið ákvörðun um fjárveitingu til markaðsleitar. Það hefir hún ekki gert, sem varla mátti heldur búast við, þar sem frv. er ekki enn orðið að lögum. Jeg skal geta þess, að fyrir mjer vakir að verja að minsta kosti miklum hluta þessa fjár til markaðsleitar fyrir kjöt, því þar álít jeg mesta þörf í svipinn. Jeg held, að ekki sje unt að ætlast til, að neinu af þessu fje — alt að 10 þús. kr. — sje varið til erindreka á Spáni, og jeg býst ekki við, að stjórnin muni gera það. Þess vegna verður að samþykkja till. hv. þm. Vestm. (JJÓs), ef ætlunin er að hafa sendimann á Spáni. En náttúrlega verður ekkert fullyrt um það, hvort hægt sje að fá 2/3 af heildarupphæðinni annarsstaðar frá, svo sem áskilið er í till. Þó er von um, að það fáist úr banka; báðir bankarnir hafa verið þess hvetjandi, að maður yrði sendur þangað suður.

Háttv. 5. landsk. (JJ) sagði, að stjórnin hefði ekkert gert í þessum málum. Þetta er ekki rjett. Hún fór með málið til sjútvn., og skyldi hún svo láta uppi álit sitt. Varð að samkomulagi að fresta till. (JJ: Þetta vissi jeg ekki). Jeg ætlaði að upplýsa um þetta við 2. umr.

Þá spurði hv. 2. þm. S.-M. (IP), hvers vegna ekki hefðu verið sendar skýrslur til þingsins um þetta efni. Þær hefi jeg sent fyrir nokkrum dögum. Það hefir engin vanræksla um þetta átt sjer stað frá minni hálfu.

Hv. 1. landsk. (SE) sagði, að fjárlagafrv., sem hæstv. fyrverandi stjórn lagði fyrir Alþingi, hefði verið gætilegt, og hefi jeg ekki neitað því. En sá galli var á því, að útgjaldaliðir ýmsir voru of lágt áætlaðir. Breytingar til aukinna útgjalda, sem þingið hefir gert, eru mestmegnis fólgnar í gætilegri áætlun. Hver, sem athugar brtt., mun komast að raun um, að flestar miða þær að því að hækka áætlanir stjórnarinnar, er sýnilega voru alt of lágar.

Viðvíkjandi höftunum sagði háttv. 1. landsk., að það, sem hv. 3. þm. Reykv. (JakM) hjelt fram, er hann mælti fyrir till. sinni um það efni, hafi verið þingvilja samkvæmt. Það er aðgætandi, að stjórnin hefir sagt frá sinni afstöðu og kunngert, hvernig ástatt er um fjármálin, að nauðsyn er á nýjum tekjum. Ekki er það óvanalegt, að menn samþykki till. af mismunandi hug. Og auðvitað gat stjórnin ekki haft neitt á móti því, að málinu væri vísað til sín. Hvar skyldi hún álíta málið betur komið en hjá sjálfri sjer! Hitt er rjett, að innflutningshöft eru neyðarúrræði. En á neyðartímum verður að grípa til neyðarúrræða. Það má segja, að út líti fyrir gott ár nú á sumum atvinnusviðum, sjerstaklega til sjávar. Annarsstaðar er útlit fyrir slæma afkomu, t. d. á Norðurlandi. Nú eru komin sumarmál og þar eru hríðar og harðindi á hverjum einasta degi.

Háttv. 1. þm. Eyf. var að minnast á nefndina frá 1921. Nál., sem hann meðal annara undirskrifaði, sýnir, að öll nefndin var sammála um að afnema lög hinnar nefndarinnar frá 1920. En hún var ósammála um það, hvort lögin frá 1920 ættu að standa. En þau stóðu og innflutningshöftunum var beitt samkvæmt þeim 1921–22 og að nokkru leyti 1923. Hv. þm. hefir skýrt rjett frá þessu, eins og hans var von og vísa.

Hv. 5. landsk. hefir í blaði sínu staðhæft, að við höfum keypt það, að fá að vera við völd, með því að afnema innflutningshöftin. Nú getur hv. þm. sjeð og heyrt af skýrslu hv. 1. þm. Eyf., að þetta er alveg rangt, þ. e. a. s. hafi hann þá ekki vitað það fyr. 1921 var mikill meiri hl. þingmanna með afnámi innflutningshaftanefndar. Það var svo sterk alda, að ekki varð móti staðið. Annars hefi jeg ekki ástæðu til annars en gleðjast yfir hv. 5. landsk.; hann hefir tekið það upp að hæla mjer fyrir framsýni og viturleik í þessu máli. Jeg ætla ekki að orðlengja um það, ekki heldur fara að kasta beinum að hv. þm. Þeim hefir verið kastað svo mörgum í kvöld, að jeg sje ekki, að hann þoli öllu meira.

Það skal athugast, að undir þessu tíu manna nál. stendur ekki einungis nafn þáverandi fjrh., heldur að minsta kosti eins eða tveggja samflokksmanna. Af atkvgr. með nafnakalli frá 1921, um að afnema lögin frá 1920, munum við sjá það, að fimm Framsóknarmenn úr nefndinni greiddu atkv. með afnámi, en fjórir á móti. Sá flokkur var skiftur um þetta mál ekki síður en aðrir.

Hv. 5. landsk. sagði, að val sendimannsins til Spánar 1920–21 hefði alveg mistekist. Jeg vil benda hv. þm. á, að stjórnin, sem hann studdi að nokkru leyti, gerði hið sama glappaskot. (SE: Það var ekkert glappaskot). Það ræður að líkum, að jeg fer ekki að halda því fram. Þegar hv. 5. landsk. segir, að 40–50 þús. kr. hafi verið þarna eytt til ónýtis, held jeg, að hann segi meira en hann getur staðið við. (JJ: Hver var árangurinn?). Þó að ekki sje hægt að benda á hann beinlínis, getur hann alt að einu verið mikill fyrir því. Það er venjulega ekki þægilegt að sýna beinan árangur slíkra sendiferða í krónutali, enda gat þingið ekki ætlast til þess í þessu tilfelli. En eins og háttv. þm. Vestm. sýndi fram á, hefir hv. 5. landsk. algerlega misskilið tilgang slíkra sendiferða.