01.03.1924
Neðri deild: 12. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í C-deild Alþingistíðinda. (2571)

42. mál, einkasala á áfengi

Forsætisráðherra (SE):

Eins og kunnugt er, var líkt frv. borið fram á síðasta þingi og þá athugað í nefnd. Jeg skýrði þá frá því, að engir samningar hefðu verið gerðir við starfsmennina, nema þriggja ára samningur við forstjórann, sem útrunninn mun í ár, einmitt vegna þess, að stjórnin hefði viljað gefa þinginu kost á því að koma öðru fyrirkomulagi á verslunina, ef svo sýndist. Enn hafa heldur ekki verið gerðir neinir samningar, og stendur spursmálið því opið. Jeg geri ráð fyrir, að málið fari í nefnd, og mun jeg ekki frekar ræða það á þessu stigi, ef ekki gefst sjerstakt tilefni til þess. Þó vil jeg benda á eitt atriði. Í 2. gr. frv. er heimilað að leggja 25–70% á alt áfengi, sem flyst til landsins. En eftir gildandi lögum má sama sem ekkert leggja á það áfengi, sem ætlað er til lyfja. Á þessu hafa lyfjabúðirnar grætt alveg óskaplega. Hinsvegar vildi stjórnin ekki lækka verðið, er ný lyfjaskrá var samin, af ótta við, að þá yrði meira drukkið. En þessi hækkun er rjettmæt, því það eru ekki sjúklingar, heldur lyfjabúðirnar, sem á þessu hafa grætt. Er því mjög æskilegt, að heimilað verði að leggja einnig á það áfengi, sem ætlað er til lyfja.