01.03.1924
Neðri deild: 12. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1106 í C-deild Alþingistíðinda. (2573)

42. mál, einkasala á áfengi

Magnús Guðmundsson:

Jeg vildi aðeins minna á það, að á þingi 1921 flutti jeg frv. um einkasölu á áfengi, þar sem gert var ráð fyrir, að ríkissjóður hefði tekjur af innfluttu áfengi til lyfja. Það gleður mig, að hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) hefir skift um skoðun síðan, því þá fanst honum mesta ósvinna að ríkið græddi á sjúklingum. En lyfjabúðirnar máttu selja á 16 kr. það, sem þær fengu á 8. Mjer þykir vænt um, að hv. þm. (SvÓ) er nú kominn á þá skoðun, er jeg hafði þá, en hann mælti þá á móti. Það er vafalaust, að ríkissjóður gæti haft mikinn hag af þessu, og væri þetta fje betur komið hjá honum en hjá lyfsölunum. En það er synd 1. þm. S.-M., að þetta hefir gengið rangt til í þrjú ár.

Um sameining á þessum tveimur verslunum, þá tel jeg það langrjettast, svo framarlega sem ekki sjeu neinir samningar við þá, sem við áfengisverslunina eru, sem geri það ómögulegt. Jeg þekki ekki þá samninga. Það er sagt, að forstöðumaður vínverslunar sje ráðinn til þriggja ára, fyrir 15. þús. kr. á ári. Jeg man ekki, hvað langt er síðan. Hæstvirt núverandi stjórn gerði þann samning. (Forsrh., SE: Hæstv. fyrv. stjórn benti á manninn.) En hún rjeð hann ekki, og jeg hefi oft vitað menn ráðna til styttri tíma en þriggja ára.

Annars er leiðinlegt, að háttv. flm. hafa ekki reiknað út tekjuaukann af þessu frv. Jeg skil ekki, að hann verði minni en 1–200 þús. kr.