23.04.1924
Efri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í B-deild Alþingistíðinda. (258)

1. mál, fjárlög 1925

Jónas Jónsson:

Jeg ætla strax að víkja fáeinum orðum að hv. síðasta ræðumanni. Mjer var ánægja að því, að hæstv. atvrh. (MG) gat ekki bent á neinn sýnilegan árangur af sendiförinni til Genúa. Þetta er alveg eins og með „nýju fötin keisarans“. Hæstv. atvrh. taldi, að jeg ætti blað hjer; líklega hefir hann átt við blaðið, sem studdi höftin allan tímann meðan þau stóðu og meðan þáverandi stjórn ekki ljet kúga sig út af rjettri leið. (MG: Þetta er ekki rjett). Jú, jeg er þessu kunnugur. (MG: Jeg les altaf blað háttv. 5. landsk.).

Vík jeg þá að hv. þm. Snæf. (HSteins). Fyrst vil jeg taka það fram, að það er siður hjá bræðraþjóð okkar, Dönum, að þingmönnum leyfist að tala um alla mögulega hluti við 1. og 3. umr. fjárlaga. Jeg segi þetta hæstv. forseta til athugunar. (Forseti HSteins: Við eigum ekki heima í Danmörku). Að vísu ekki, en jeg vona, að hæstv. forseti telji þetta ekki ilt fordæmi, eins og hans flokkur dansar eftir pípu danskra manna.

Hv. þm. fór að reyna að bæta úr fyrir hjeraðslækninum á Akureyri. Sannleikurinn er, að hann hefir sjálfur gefið það upp, að hann hafi grætt svo mikið á vínlyfseðlum, að hann hefði getað farið utan. Vitanlega þykir mörgum leitt, að læknirinn skyldi telja virðingu sinni samboðið að hæla sjer af slíku. Átti vel við að minnast á þetta atvik í sambandi við utanfararstyrki, af því að þessi læknir fjekk sinn utanfararstyrk, svo sem hann hefir lýst yfir. Stóryrði eru því óþörf. Jeg skal játa, að jeg býst við, að ýmsir standi honum framar í þessari atvinnugrein. Landshagsskýrslur sýna, að innflutningur meðala fer vaxandi ár frá ári. Fyrir heiðarlegu læknana er sorglegt að vera í þessari samábyrgð.

Mjer þótti vænt um, að hv. þm. Snæf. fann ekki ástæðu til að mótmæla þeirri staðreynd, að unga kaupfjelagið í kjördæmi hans hefði orðið til að bæta verslunina þar vestra. Jeg endurtek það, að þegar jeg mintist á ástandið í Snæfellsnessýslu, var jeg alls ekki að áfellast fólkið, heldur verslunarástandið þar, útlendu verslunarkúgunina, sem skapar fátækt og bágindi. Hv. þm. Snæf. mundi fá að sjá, hvaða áhrif verslun hefir á velmegun fólks, ef hann ferðaðist um þær sýslur, sem hafa notið blessunar frjálsra verslunarsamtaka um langan aldur.

Hv. þm. Vestm. sagði margt órökstutt. Hann mætti vera mjer þakklátur fyrir það, að jeg herjaði út úr hæstv. stjórn skýringu á því, hvers vegna erindrekinn fjekk ekki erindisbrjef. Hæstv. forsrh (JM) skýrði frá því, að Danir hefðu ekki viljað leyfa okkur að hafa ræðismann í Genúa. Hæstv. forsrh. er ekki harður maður í skiftum við bræðraþjóðina. Það er sannað mál, að sendiförin mistókst. Jeg læt mjer í ljettu rúmi liggja stóryrðin; þau hafa lítið sannanagildi. Þessi hv. þm. er vanur að tala skynsamlega, þegar hann hefir góðan málstað, en nú hefir út af brugðið.

Jeg benti á, að mein útvegsins væri það að hafa ekki komið skipulagi á fisksöluna. Nú mun hún vera að mestu í höndum hrings, sem breskur braskari stendur fyrir. Fiskverð er mjög misjafnt, eftir því hjá hvaða bröskurum útvegsmenn lenda. Veit jeg, að háttv. þm. Vestm. viðurkennir, að það sje óheppilegt, að þessi Englendingur hefir yfirráðin um markaðinn. Sömuleiðis hefir hann óbeinlínis orðið að játa skakkaföllin á fiskversluninni. Þau eru að kenna menningarleysi forkólfanna.

Þegar jeg tala um að reyna eitthvað til að gera „Coplendinga“ ómynduga, þá leyfir háttv. þm. sjer að koma fram með álíka sleggjudóma og staðið hafa í dönsku málgagni — sem ekki má nefna hjer í hv. deild — um það, að jeg vildi spilla fyrir útveginum. Jeg hefi sýnt, að jeg vil greiða fyrir honum. Útvegsmenn hjer eru ekki nema fáir í sölubraskinu. Hygg jeg, að hv. þm. sje kunnugt um, að jeg hefi tekið svari Vestmannaeyinga og Þórs í blöðum, jafnvel frekar en aðrir, og það jafnvel þegar þetta fyrirtæki var sem mest óvirt og rógborið af braskaralýð landsins.

Þá sagði hæstv. forsrh. í fáum orðum sorgarsöguna um Gunnar Egilson, að hann hefði átt að verða konsúll, en aldrei náð þeirri tign. Gat hann ekki um, hvað oft honum hefði verið lofuð sú staða og svikinn um hana. Úr því hann hafði svo marga kosti, sem orð er á gert, hefði ekki spilt að gera hann að ræðismanni. Fyrst jeg er kominn út á þetta svið, leyfi jeg mjer að benda á, að það er ekki vel viðeigandi, að þessi maður, sem hefir verið erindreki í Ameríku og skuldar ríkinu stóra upphæð síðan, hann skyldi verða valinn sem sendimaður suður á Spán. Jeg hefði ekki vakið máls á þessu, ef ekki hefðu stóryrði háttv. þingmanna gefið tilefni. Veit jeg, að hæstv. forsrh. hlýtur að játa, að hvergi annarsstaðar myndi þetta geta átt sjer stað.

Viðvíkjandi prófessomum í íslensku get jeg sagt það, að jeg veit, að hæstv. forsrh. hefir fullkominn skilning á því, hvað það er óheppilegt, að hann fari frá háskólanum. Vænti jeg, að atkvgr. í kvöld sýni, að hæstv. forsrh. ber fyrir brjósti heill háskóla vors.

Hæstv. forsrh. hjelt því fram, að Framsóknarmenn hefðu eyðilagt höftin. Hæstv. ráðherra mun að sjálfsögðu kunnugt um það, að í Framsóknarflokknum og blöðum hans hafa þau haft sinn aðalstuðning. Hv. fyrv. þm. Ak. (Magnús Kristjánsson), sem var stuðningsmaður hæstv. forsrh., barðist fyrir höftunum á meðan nokkur stóð uppi. Þeir, sem höfðu mesta trú á höftunum, fóru að missa traust á stjórninni, þegar hún ljet undan síga. Varð svo mikill glundroði í þinginu, að borið var fram traust á stjórnina af mótstöðuflokki hennar. En traustleysið á stjórn Jóns Magnússonar í Framsóknarflokknum 1921 og 1922 stafaði fyrst og fremst af brigðmælgi hans í haftamálunum, er hann kastaði sjer með opnum örmum í fang spekúlantanna. Annars vildi jeg skjóta því til hæstv. atvrh. (MG), að hæstv. stjórnarforseti (JM) sagði fyrst á ræðu sinni, að hann væri á móti innflutningshöftum og hefði enga trú á þeim, en sagði þó síðar í þeirri sömu ræðu, að hann væri þeim fylgjandi. Þetta bendir ekki á, að glöggar línur sjeu um höfuðmálin í höfðum ráðherranna.

Það var rjett hjá hæstv. fjrh. að minnast ekki á stóru embættin, eins og t. d. bankastjórastöðurnar við Íslandsbanka, þegar hann var að tala um ósamræmið í launum embættismanna, og þó að hann vildi fóðra menningarfjandskap sinn með því, að hann hefði verið á móti stofnun gjaldkeraembættisins við Landsbankann, þá þýðir það ekki neitt, því að það var flokksmaður hans, sem bar það fram, og flokksmenn hans, sem komu því í gegn. Þetta hljóp hæstv. fjrh. yfir. Þá virtist hæstv. ráðherra ætla að reyna að sleppa ódýrt út af því með eftirlitsmanninn með bönkum og sparisjóðum. Þó aldrei nema hann segði, að embættið hefði verið stofnað mín vegna, þá var það víst, að það var hann, sem bar frv. fram; fyrir það þýðir honum ekkert að þræta. Annars var það ekkert nýmæli, að slíkt embætti væri stofnað, því að í Danmörku hefir verið eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum, sem heitir Green, og það var hann, sem fyrstur kom upp Landmandsbankahneykslinu. En það er ekkert nýtt hjá bræðraþjóðinni, að hún setji „kritik“ á bankana, þó að eftirlitsmaður sje með þeim. Að stofnun þessa eftirlitsmannsembættis hafi verið til þess að koma í veg fyrir, að bankarnir væru „kritiseraðir“ nær engri átt. Annars hefði jeg sótt um þetta embætti, hefði jeg fengið upplýsingar um það fyr, að það væri eiginlega gert fyrir mig að setja það á stofn. Harma jeg því, hve seint jeg fjekk þessar upplýsingar.

Þá sagði hæstv. fjrh., að ekki væri þörf á að veita prófessor Nordal ritlaun, af því að hann hefði 7000 kr. laun. En þess ber að gæta, að hann kom hingað á versta tíma, varð því að taka það húsnæði, sem fáanlegt var, en það var mjög óhentug íbúð og mjög dýr, svo dýr, að hann hefir orðið að borga í húsaleigu um 3000 kr. á ári. En í skatta og opinber gjöld hefir hann orðið að borga 2000 kr. Hefir hann því haft eftir til að lifa af 2000 kr., sem hann hefir líka orðið að kaupa fyrir bækur og ýms rit, sem staða hans hefir útheimt. Get jeg nú ekki búist við öðru en fjármálaspekingar landsins sjái, að þetta fje er alt of lítið fyrir vísindamann í þessari vandasömu stöðu til þess að lifa af.

Verði því ekki úr þessu bætt, hefir Nordal engin önnur ráð en annaðhvort að hrekjast af landi burt eða fara að slíta sjer út í tímakenslu, eins og t. d. hinn ágæti stærðfræðingur okkar dr. Ólafur Daníelsson hefir orðið að gera.

Jeg trúi nú ekki öðru en að forstöðumaður Flóaáveitunnar, sem er góður í reikningi, þó að bókmentaþekking hans risti ekki djúpt, hljóti að sjá, að jeg reikna hjer betur en hann.

Þar sem hæstv. ráðherra var með sinni mögnuðu fyndni að líkja sjer við þurkaðan þorsk, vil jeg skjóta því til hans, að það væri vel viðeigandi fyrir hann að hafa að fangamarki þrjú Þ, sem ættu að tákna „þurkaður þorskur Þorláksson“.

Þá var hæstv. fjrh. að kalla mig húskross deildarinnar, en jeg verð mjer til mikillar sorgar að láta hann vita það, að hann er að flestra dómi ekki aðeins talinn húskross þingsins, heldur og allrar þjóðarinnar.