28.04.1924
Neðri deild: 57. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1118 í C-deild Alþingistíðinda. (2586)

42. mál, einkasala á áfengi

Frsm. 1. hl. (Ágúst Flygenring):

Eins og sýnilegt er af þingskjölunum, þá hefir nefndin ekki getað orðið á sama máli um frv. þetta. 1. hluti nefndarinnar getur eftir atvikum fallist á 2. gr. frv., en um 1. gr. þess er öðru máli að gegna. Getum við ekki fallist á, að hún nái fram að ganga, því við sjáum ekki, að það leiði til nokkurra hagsbóta að leggja forstöðu vínverslunarinnar undir forstöðumann olíuverslunarinnar. Höfum við leitað álits landsverslunarforstjórans, og hefir hann ráðið frá þessari sameiningu. Telur hann sitt fólk hafa meir en nóg að gera, og vill sjálfur ekki taka þetta að sjer. Yrði því að ráða nýjan mann til að hafa forstöðu vínverslunardeildarinnar á hendi, ef hún ætti að flytjast undir forstjóra svonefndrar landsverslunar, og þó sá maður yrði undir umsjón landsverslunarforstjórans, þá er það ljóst, að peningalega myndi ekki vinnast mikið á við þetta. Því verður heldur ekki gengið fram hjá, að það krefur alt annarar þekkingar að hafa á hendi verslun með vín eða verslun með steinolíu, og það er barnaskapur að setja slíkt undir sömu stjórn. Með þeirri þekkingu, sem forstjórar þessara verslana, hvor um sig, hafa til að bera, hika jeg meira að segja ekki við að segja, að þetta sje ógerningur. Er vínverslunin líka út af fyrir sig svo stórt fyrirtæki, að tæplega er hægt að sameina það öðrum verslunarrekstri, nema til óhags og spillis. Við viljum því ekki, 1. hluti nefndarinnar, fara að hrófla við vínversluninni eins og stendur. En þegar breyting verður á forstöðu vínverslunarinnar, þá teljum við sjálfsagt að fá hana í hendur manni, sem sjerþekkingu hafi á þessu sviði og geti haft á hendi umsjón með lyfjakaupum apótekanna, ef slíkur maður er þá fáanlegur, en annars teljum við sjálfsagt að ráða sjerstakan mann til þess.

2. hluti nefndarinnar hefir lagt það til, að málið verði lagt á vald hæstv. stjórnar, til þeirrar skipunar, sem hún telur heppilegasta. Ef breyting verður gerð á núverandi fyrirkomulagi, þá verður stjórnin að skipa því á þann hátt, sem henni best þykir, líklega til þess er þing kemur næst saman. En jeg hygg, að aldrei muni fást neinn sæmilegur árangur, ef að endilega og ófrávíkjanlega einn og sami maður á að veita þessum verslunum forstöðu. Það er svo gagnólíkt að hafa með höndum verslun með steinolíu og verslun með vín, að ólíklegt er, að hægt sje að fá mann, sem sje jafnvel hæfur til hvorttveggja, og síst, að hann hafi þá lyfjaþekking í viðbót, a. m. k. sem stendur, og kæri sig þá um það að hafa þetta hvorttveggja eða alt með höndum.

Jeg legg því á móti því, að þetta frv. verði samþykt, eins og það liggur fyrir. En jeg mæli með því, sem stendur í 2. gr. frv., að tollur á öllum vínanda, sem inn flyst, verði hækkaður hæfilega, eins og 2. gr. gerir ráð fyrir.

Jeg mun svo ekki fjölyrða meira að sinni. En jeg vona, að deildin líti á málið einkum frá praktískri hlið, og sjái, að með þessu frv. er ekkert unnið.