28.04.1924
Neðri deild: 57. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1125 í C-deild Alþingistíðinda. (2588)

42. mál, einkasala á áfengi

Frsm. 2. hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Þess hefði mátt vænta, að jeg hefði getað orðið samferða hv. 3. þm. Reykv. (JakM) í þessu máli. Og svo er líka í raun og veru, að jeg er sömu skoðunar um það, að meiri sparnaður er að því að sameina þessar verslanir en reka þær sína í hvoru lagi. En jeg býst við því, að hv. deild fari nærri um það af nál., af hvaða ástæðum jeg hefi kosið að vera með 2. hl. fjhn. í þessu máli.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, hefir fjhn. þríklofnað í þessu máli. Þrír hv. nefndarmenn vilja enga sameiningu, tveir vilja gefa hæstv. stjórn heimild til þess að sameina verslanirnar, og hefi jeg fallist á breyting þess efnis á frv. því, sem við hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) flytjum. Loks vill einn nefndarmanna, hv. 3. þm. Reykv. (JakM), að frv. verði samþykt óbreytt.

Ástæðan til þess, að jeg kýs heldur að gefa þessa heimild, er sú, að jeg taldi meiri líkur til þess, að hún næði fram að ganga, heldur en frv. óbreytt. En jeg get lýst yfir því, að ef brtt. verður feld, þá mun jeg greiða atkv. með frv.

Hæstv. stjórn hefir nú lýst yfir því, að hún mun gera sitt ítrasta til þess að draga úr kostnaði við mannahald og koma samræmi á kaupgjald við þessar stofnanir og aðrar stofnanir hins opinbera. Jeg er sammála háttv. 3. þm. Reykv. (JakM), að mikill sparnaður mundi verða að því að sameina ríkisverslanirnar. Það gæti verið til fyrirstöðu, að húsrúm það, sem landsverslun nú hefir til umráða, sje tæplega nógu stórt, eftir þeim upplýsingum, sem forstjóri hennar ljet nefndinni í tje. En jeg held nú, að ef viljinn er góður, þá geti sameiningin orðið, húsrúmsins vegna.

Jeg vænti þess, að hv. deild vilji fremur fallast á brtt. okkar 2. hl. nefndarinnar, heldur en till. 1. hl., því samkvæmt gildandi lögum getur ríkisstjórnin ekki sameinað þessar stofnanir, nema breyting sje á gerð. En treysti hæstv. stjórn sjer til þess að framkvæma sameininguna eftir brtt. okkar hv. 1. þm. S.-M., ef hún yrði samþ., þá vona jeg, að hún fái fylgi fremur till. 1. hl. nefndarinnar. En þar næst kýs jeg, að frv. gangi óbreytt fram. En hvað sem ofan á verður, þá vænti jeg, að hæstv. stjórn geri sitt til þess að koma betri skipun og samræmi á kaupgjald og vinnubrögð við þessar stofnanir en nú er, svo sem hún hefir áður lofað þinginu.