28.04.1924
Neðri deild: 57. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1127 í C-deild Alþingistíðinda. (2589)

42. mál, einkasala á áfengi

Frsm. 1. hl. (Ágúst Flygenring):

Jeg gat þess, að ástæður okkar, 1. hl. nefndarinnar, væru praktískar.

Jeg býst við, að hv. 3. þm. Reykv. (JakM) geti orðið sammála okkur um það, að tóbaksverslunin sje ekki stofnun, sem ætlast sje til að standi um aldur og æfi, heldur einskonar tilraun. Sama er um olíuverslunina, að því leyti, að hún er aðeins bundin við þann vissa tíma, sem um er samið. Sjáum við því enga ástæðu til að fara að hrófla við henni, heldur láta þann forstjóra, sem hefir stjórnað henni, halda áfram, en ekki taka þar nýjan mann. Enda yrði sparnaðurinn ekki eins mikill eins og hv. 3. þm. Reykv. vill vera láta, þar sem forstjóri landsverslunar yrði að taka mann til að hafa á hendi forstjórn áfengisverslunarinnar, og yrði góður maður til þess starfs ekki fenginn fyrir minna en venjuleg verslunarstjóralaun. Yrði þá aðeins einhver lítilfjörlegur sparnaður við skrifstofuhaldið, og þó vafasamur. En eins og forstjóri landsverslunar tók fram, yrði það æði óþægilegt að setja nýja menn í störfin.

Það, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði um að mannahald og mannaþörf færi ekki mest eftir verslunarveltu, heldur eftir fölu viðskiftapóstanna, brjefaskiftum og fjölda afgreiðslna, játa jeg að sje satt. Nú hefir forstjóri landsverslunar sagt mjer, að hann ljeti haga störfum þannig, að þegar mestar væru annirnar, væri brjefaskriftunum og öðru safnað saman, eða látið bíða, það sem bið þyldi, og svo leyst af hendi, þegar um hægðist, svo að altaf lægi nægilegt starf fyrir, og fjöldi fólksins væri því alls ekki miðaður við þá starfsþörf, sem er, þegar mest þarf að gera, heldur við það raunverulega verkefni, sem fyrir hendi lægi allan ársins hring. Vinnur hann sjálfur og skrifstofustjórinn mjög oft fram yfir 6 og hitt fólkið sína 7 eða 8 tíma daglega.

Forstjóri áfengisverslunarinnar kvartar sáran yfir því, að af sjer hafi verið tekinn maður til afgreiðslunnar í útsölunni, sem hann hafi alls ekki mátt missa frá störfum á skrifstofunni, ef hann eigi að halda öllu þar í þeirri reglu, sem nauðsynlegt sje.

Það er því augljóst, að í augnablikinu getur aldrei orðið mikill sparnaður að þessari sameiningu. Og tóbaksverslunina vil jeg alls ekki binda ríkinu fastar en er, jeg tek hana ekki til greina, því hún á og þarf að leggjast niður. Jeg er alveg viss um það, að þó að ekkert verði frekar gert við málið, þá mun hæstv. stjórn gera sitt besta til að spara við þessar stofnanir. Og þegar samningurinn við forstjóra áfengisverslunarinnar er út runninn, gerir hún auðvitað nýjan samning, annaðhvort við hann eða annan hæfan mann, sem hún kann að fá til starfsins.

Um forstjóra landsverslunarinnar er það að segja, að hann er þeirri verslun kunnugastur allra manna, hefir verið forstjóri hennar frá byrjun og verið með í að búa til samninginn um olíuna — og vil jeg lofa honum á sínum tíma að skila því af sjer svo sem hann hefir best tök á og ekki hrófla við stofnuninni, að svo komnu, á neinn hátt.

Tóbakið er tilraun, og aðeins tilraun, og annað eða meira vil jeg ekki að sú verslun verði. En jeg er ekkert í vafa um það, hvernig sú tilraun fer, því að jeg veit það fyrirfram, að tóbaksverslun, sem önnur verslun, verður hagfeldust og arðvænlegust í höndum einstaklinga.