23.04.1924
Efri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 914 í B-deild Alþingistíðinda. (259)

1. mál, fjárlög 1925

Forsætisráðherra (JM):

Aðeins örfá orð út af ræðu hv. 5. landsk. Hv. þm. sagði, að jeg hefði aldrei verið harður í viðskiftum við bræðraþjóðina. Jeg vildi mega biðja hann að nefna dæmi, þar sem jeg hefi látið minn hlut fyrir Dönum. Jeg kannast ekki við eitt einasta. Háttv. þm. var að saka mig um, að jeg hefði ekki haldið til streitu ágreiningnum um það, hvort konsúll sá, er senda átti til Miðjarðarhafslandanna, ætti samkvæmt 7. gr. sambandslaganna að vera danskur eða íslenskur sendimaður. Jeg ljet þingið skera úr, hvort taka skyldi gerðardóm í þessu, og jafnvel sá maðurinn, sem harðastur hefir verið í þessum málum af þingmönnum okkar, vildi ekki leggja til, að út í það væri farið. Enda taldi Ragnar Lundborg, sem annars altaf heldur vorn taum, skoðun Dana rjetta í þessu efni. Það er ekki rjett hjá hv. 5. landsk., að Gunnar Egilson hafi verið svikinn um þessa ræðismannsstöðu. En það var satt, að hann bjóst við að verða skipaður.

Það er mjög óviðfeldið af hv. þm. að vera að draga inn í þessar umræður skuldir þessa manns við ríkissjóð. Það er satt, að G. E. er talið eitthvað til skuldar, en hann heldur því fram, að hann hafi eytt því fje í þjónustu landsins.

Jeg hefði gjarnan óskað að geta haldið innflutningsnefndinni 1921. Ekki fyrir þá sök, að hún var innflutningsnefnd, heldur af því, að hún var líka gjaldeyrisnefnd. Því að jeg hefi litið svo á, að það atriði væri meira vert í starfi hennar en innflutningshömlurnar, því að jeg stend við það, sem jeg sagði áður, að jeg hefi litla trú á innflutningshöftum, en hinsvegar tel jeg sjálfsagt að halda þeim áfram fyrst um sinn, úr því að þau einu sinni eru komin á. En það, sem jeg hefi miklu meiri trú á, eru háir tollar, jafnvel töluvert hærri en verðtollur sá, sem lagður hefir verið á hinar ýmsu vörutegundir. Þessi skoðun mín getur ekki komið háttv. 5. landsk. þm. neitt óvart, því að jeg tók það fram á undirbúningsfundum undir landskjörið, að jeg teldi alla hindrun á frjálsri samkepni eiga að hverfa og öll verslunarhöft. Jeg er því á gagnstæðri skoðun við hv. 5. landsk., sem helst vill binda alla verslun og alla menn og gera helst alla ómynduga, sem standa fyrir utan Sambandið. Jeg tel það því stærsta skilyrðið fyrir hag þjóðarinnar, að athafnafrelsið fái að njóta sín.

Þá kom það mjer mjög óvart, er háttv. 2. landsk. (SJ) fór að leggjast á móti till. minni um að láta laun íslenskukennarans við háskólann standa áfram í fjárlögunum. Mjer kom þetta óvart, af því að jeg hefi þekt þennan mann sem sanngjarnan og rjettsýnan mann frá því, er við vorum í stjórn saman.

Upptökin á embætti því, sem hjer er um að ræða, eru hjá þinginu. Tel jeg því ekki rjett að svifta viðkomandi mann því, sem honum hefir verið lofað af þinginu.