28.04.1924
Neðri deild: 57. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1131 í C-deild Alþingistíðinda. (2591)

42. mál, einkasala á áfengi

Jón Auðunn Jónsson:

Þetta frv. er komið fram í sparnaðarskyni. En jeg og hv. meðnefndarmenn mínir í 1. hl. erum sannfærðir um það, að enginn sparnaður sje að því, þegar til framkvæmdanna kemur. Hinsvegar er það víst, að fækka má þrem mönnum í vínversluninni, tveim á skrifstofu — spjaldskrármanninum og öðrum til — og einum á birgðastöð, og jafnframt þremur frá landsverslun, skrifstofustjóra og tveim öðrum.

En það, sem vakir sjerstaklega fyrir okkur, er það, að þótt fyrirkomulaginu yrði breytt, þá þyrfti eftir sem áður að hafa sjerfróðan mann til að kaupa inn lyf og hjúkrunargögn, meðan landið hefir þau innkaup á hendi. Vilji þingið aftur á móti breyta lögunum í þá átt, að hætt verði við útvegun lyfja og hjúkrunargagna og landlækni falið eftirlit með lyfjabúðum, er alt öðru máli að gegna. En eins og nú er, sjáum við ekki, að við það fyrirkomulag, sem gert er ráð fyrir í frv., sparist meira en ef stjórnin fækkar starfsmönnum eins og framast er unt. Auðvitað mætti fá lyfjafræðing fyrir minna kaup en forstjóri áfengisverslunar hefir nú, en þar sem litið er á þetta sem fjárhagsmál, þá verðum við að athuga þá hliðina jafnframt, sem að versluninni — sem arðberandi fyrirtæki — snýr. Hv. frsm. 1. hl. (ÁF) hefir lýst því mjög greinilega, hvað tap ríkissjóðs getur orðið stórkostlegt, ef ekki er lögð fylsta rækt við rekstur verslunarinnar, og að núverandi forstjóri sje að breyta fyrirkomulagi á innkaupum o. fl., sem aflaga hefir farið í rekstrinum, og að af því megi vænta mikils tekjuauka fyrir ríkissjóð, án þess neysla á vínum aukist.

Jeg skildi ekki hv. 3. þm. Reykv. (JakM), þar sem hann sagði, að hann mundi hafa orðið á móti sameiningu þessara stofnana, ef tóbakseinkasalan hefði verið lögð niður. Þá finst mjer einmitt, að frekar hefði getað komið til mála sameining, þar sem starfið hefði orðið mun umfangsminna.

Mjer finst full ástæða til að leggja upp úr því, sem forstjórar þessara stofnana segja, meðan ekki er sannað, að það sje rakalaust.

Það má vel vera, að forstjóri landsverslunar gæti haft á hendi innkaup á vínum, þó hann auðvitað skorti alla sjerþekkingu til þess, en lyfin yrði þó sjerfróður maður að kaupa inn. Þar sem við höfum leyft innflutning á þessum vinum, tel jeg sjálfsagt að ná sem mestum tekjum af vínversluninni í ríkissjóð og reka verslunina eins og tóbaksverslunina, á þann hátt að ríkissjóður hafi góðan hagnað af. Nú hefir sá maður, sem veitir vínversl. forstöðu, fengið þekkingu og reynslu í starfinu, og hygg jeg, að verslunin sje best komin í hans höndum.