28.04.1924
Neðri deild: 57. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1144 í C-deild Alþingistíðinda. (2597)

42. mál, einkasala á áfengi

Frsm. 3. hl. (Jakob Möller):

Jeg get vel tekið undir það, að úr því landsverslun sje einu sinni höfð, þá sje sjálfsagt að reka hana sem haganlegast. Um hitt verður deilt, hvernig það megi best verða. Því hefir ekki verið mótmælt, að kostnaðurinn yrði minni með því að sameina verslanirnar. Og það ætti að vera auðvelt að fá mann með meiri sjerþekkingu til að hafa forstjórn þessa á hendi. Við höfum þegar sótt útlending til forstjórnar vínversluninni. Ef ekki væri völ á íslenskum manni, sjerfróðum um vín- og tóbaksverslun, þá væri þó vafalaust hægt að fá hann frá útlöndum. Hinsvegar er jeg ekki í vafa um það, að hjer er völ á ýmsum mönnum, sem fullkomlega væru færir til að taka forstöðu þessa fyrirtækis að sjer, og mundu fást til þess fyrir ekki meira en helming þess kaups, sem nú er greitt í því skyni, eða ca. 15 þús. kr. Sparnaður ætti líka að geta orðið á skrifstofuhaldinu. Nú sem stendur fer það fram í tveim húsum. Og þó forstjóri landsverslunarinnar efist um það, að sögn hv. 1. hl. nefndarinnar, að hægt sje að flytja það saman, þá er það eðlilegt, því hann er á móti sameiningunni yfirleitt. Efi hans í þessu efni er því í sjálfu sjer góð og gild játning. Er knýjandi ástæða til að taka ákvörðun um þetta nú, þar sem nú liggur fyrir að ráða forstjóra við vínverslunina. Og jeg efast um, að hægt sje að fá góðan mann til að taka hana að sjer til skemri tíma en þriggja ára. Hæstv. forsrh. (JM) hefir nú lýst afstöðu sinni til þessa máls með þeirri furðulegu yfirlýsingu, að ekki sje hagnaðar að vænta af sameiningunni. Hinu áleit hann ekki þörf á að gera grein fyrir, á hverju hann bygði þá skoðun sína. Aftur á móti hefir hann lagt það til að skerða hæstarjett, þó játað sje, að öryggi rjettarins með því sje haggað. Verð jeg að segja, að þetta er sorglegur samanburður á afstöðu sama manns til tveggja mála. En auðvitað er ekki mitt að dæma um, hvað hann telur sjer sæma. En kunnugt ætti honum að vera um, að spara mætti að minsta kosti húsnæði vínverslunarinnar, sem hann leigir henni sjálfur.

Að lokum vil jeg taka undir það, að jeg öfunda ekki hið háa Alþingi af þeim orðstír, sem það fær, ef það legst á móti þessum sparnaði, eftir allar þær ráðstafanir, sem það hefir gert og ætlar að gera til niðurskurðar á mentunar- og menningarstofnunum í landinu.