28.04.1924
Neðri deild: 57. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1145 í C-deild Alþingistíðinda. (2598)

42. mál, einkasala á áfengi

Björn Líndal:

Jeg vil ekki láta hjá líða að minnast á, hvernig þessar umræður hafa snúist. Þær hafa nær eingöngu fjallað um skrifstofukostnaðinn og launakjörin á þessum verslunarskrifstofum ríkisins, en á hitt hefir litið verið minst, hvernig verslanirnar hafa verið reknar. Hjer er þó um fyrirtæki að ræða, sem veltur á miljónum, og er ekki lítið upp úr því að leggja, að góð verslun, hagkvæm og heppileg, sje gerð.

Og það skal jeg fúslega láta í ljós, að jeg hefi ekki mikla trú á því, að verslun með vín sje vel borgið í höndum þeirra hinna sömu, sem gert hafa fyrir hönd landsins samning um steinolíuna. Jeg get því ekki fallist á sameininguna. Er líka á það að líta, að vínverslunin, ein af þessum verslunargreinum, er sú eina þeirra, sem ekki verður skoðuð sem bráðabirgðaráðstöfun. En mjer þykir hætt við, að erfiðara verði að losna við hinar landsverslunargreinarnar, ef áfengisverslunin verður sameinuð þeim.