23.04.1924
Efri deild: 53. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í B-deild Alþingistíðinda. (260)

1. mál, fjárlög 1925

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg skal segja hv. 5. landsk. (JJ) það, að það finnur enginn betur en jeg, hve óumræðilega lág laun embættismanna eru hjer, og er ekkert annað, sem getur rjettlætt það, en að það er neyðarástand, sem ríkir hjá þjóðinni. Og því verður ekki mótmælt, að eina ráðið til þess að fá menn til að sætta sig við hin lágu laun, er að gæta samræmis. Af því að hv. 5. landsk. var svo spakur í síðustu ræðu sinni, skal jeg ekki fara langt út í hana. Aðeins leiðrjetta það, er hann var að tala um, að hjeraðslæknirinn á Akureyri hefði haft miklar tekjur af vínsölu. Þetta er alveg óhæfileg og algerlega ósönn árás á þann mæta mann, því að hann hefir ekkert gert annað en að gefa lyfseðla fyrir þeim hressingarmeðulum, sem menn hafa þurft að fá úr lyfjabúðum eftir að löggjöfin breyttist svo, að þau fengust ekki í verslunum. Er því ekki nema eðlilegt, að hann hafi fengið einhverjar tekjur fyrir það. Annað hefir hann aldrei sagt. En þó að hann væri svo samhaldssamur að halda þessum peningum saman, og nota þá svo til þess, sem hann langaði mest til, en það var að fara sjer til hressingar og fræðsluauka út fyrir pollinn, er ekki hægt að saka hann um það.

Þá vildi jeg mega biðja afsökunar á því, þó að jeg tali hjer nokkur orð með einni brtt., er hjer liggur fyrir, sem þingmaður Reykvíkinga, þar sem mitt stóra kjördæmi er svo óheppið að eiga engan fulltrúa í þessari háttv. deild. Brtt. þessi er um lítinn styrk til lýðskólans í Bergstaðastræti. Jeg tel það ekki vansalaust að fella styrk til þessa skóla niður af fjárlögunum. Hann hefir að undanförnu notið dálítils styrks frá ríkissjóði og bæjarsjóði. Og hve lítilþægur hann hefir verið, ætti að vera honum til meðmæla, svo að hann fengi styrkinn áfram. Annars tel jeg ekki samræmi í því að láta nýjan kvöldskóla hjer fá styrk, en fella hinn gamla út. Segi jeg þetta ekki til þess að spilla fyrir hinum nýja skóla, síður en svo, heldur eingöngu til að sýna fram á, að sjálfsagt sje, að þessi gamli góðkunni skóli fái að halda sínum styrk.