01.05.1924
Neðri deild: 60. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1149 í C-deild Alþingistíðinda. (2606)

42. mál, einkasala á áfengi

Sveinn Ólafsson:

Þessi brtt. á þskj. 497 er fram komin á síðustu stundu, og hefir því ekki gefist neinn tími til að athuga hana. Þó má sjá það fljótlega, að ef hún verður samþ., þá er um leið burt fallinn mergurinn málsins í frv. þessu. Eftir verður þá aðeins þetta atriði, sem felst í 2. gr frv., um að heimila álagningu á vínanda til lækna og lyfjabúða, sem ætti að gefa ríkissjóði talsverðar tekjur. Ef þessi viðauki við 4. gr. laganna frá 1921 verður samþ., sem hv. flm. vilja koma að, þá liggur það í hlutarins eðli, að ekkert verður úr sameiningunni eða sparnaði á mannahaldi, því að þetta á að vera bundið við það, að ekki fáist hæfur maður til að annast vínverslunina. En það er ekki allra minsta ástæða til að efast um, að hæfur maður fáist, og þá er sameiningin um leið úr sögunni. Og þar með er líka mergurinn málsins einnig úr sögunni.

Hv. flm. brtt. (ÁF) kallar þetta litla breytingu á frv.; jeg kalla þetta aftur á móti mikla breytingu, og svo róttæk er hún, að hún ónýtir að mestu frv., ef samþ. verður. Hv. flm. brtt. vildi halda því fram, að lítið sem ekkert myndi sparast, þótt sameiningin næði fram að ganga. Það hefir þó verið bent á það með skýrum rökum, að ef þessar tvær skrifstofur ríkisverslunar verða sameinaðar, þá sparast þó í mannahaldi að minsta kosti einn aðalbókhaldari og einn fjehirðir, auk nokkurra ódýrari starfsmanna. Það er því með öllu rakalaus staðhæfing, að engan sparnað leiði af sameiningunni. Hæstv. fjrh. (JÞ) tók þetta nokkuð frá annari hlið. Hann vildi gera hv. Ed. að grýlu í augum vorum, og kvað hana myndu granda frv., ef það kæmi til hennar í þessari mynd, sem það er í nú. Jeg fyrir mitt leyti vil ekki gera hv. Ed. slíkar getsakir. Jeg býst við, að hún muni hallast að því, því að hún hefir í öðrum málum sýnt, að sparnaðarviðleitnin er engu síður rík hjá henni en hjer í Nd. Vil jeg því til stuðnings benda á það, að það frv., sem nú var verið að ljúka við hjer, um fækkun dómara í hæstarjetti, kom einmitt fram í þeirri hv. deild. Jeg vil því greiða atkvæði með þessu frv. eins og það er nú, í því trausti, að hún vilji einnig hjer styðja að sparnaðarmáli, sem er miklu sjálfsagðara og eðlilegra en sparnaðurinn á hæstarjetti. Hitt tel jeg eyðileggingu málsins, ef brtt. á þskj. 497 verður samþ., og frv. þannig limlest.