01.05.1924
Neðri deild: 60. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1151 í C-deild Alþingistíðinda. (2608)

42. mál, einkasala á áfengi

Halldór Stefánsson:

Þetta frv. er einkum stutt með því, að af því verði svo mikill sparnaður, ef það verði samþykt. En jeg held, að þessi sparnaður sje mestur í ímyndun þeirra, sem þetta staðhæfa. Þeir segja, að hjer sje ekki um annað að ræða en sameiningu vínverslunarinnar við landsverslun, og á þessu byggja þeir sparnaðarreikning sinn. En þetta er rangt. Þessu fylgir bæði lyfjaverslun og lyfjaeftirlit. Og það er þetta, sem gerir það óhugsandi, að fela forstöðuna einum manni. Þetta hafa hv. flm. frv. (SvÓ og JörB) sjeð, því þeir vilja láta skipa sjerstakan mann, sem hafi með höndum lyfjaverslunina og lyfjaeftirlitið, undir yfirstjórn forstjóra landsverslunar. En jeg hygg, að flestir muni sjá, hve fráleitt það er að setja þennan sjerfræðing undir eftirlit forstjórans. Þannig sparast sem sje enginn maður, því þá þarf, ef ekki á að breyta lögunum um lyfjaverslun ríkisins, að halda lyfjafræðingnum. Munar þá því einu, hvort hann verður sjálfstæður starfsmaður, ábyrgur sinna gerða, eða undirmaður landsverslunarforstjórans. Það má vel vera, að á þann hátt mætti spara ofurlítil laun, en það yrði svo óverulegt, að ekki tekur tali. Þessi maður þarf að líkindum — hvort sem hann heitir forstjóri eða undirtylla — að hafa sjerstaka skrifstofu. Og ef starfsmennirnir á skrifstofum ríkisverslananna hafa hvort sem er nægilegt að gera, þá sparast lítið við það, hvort þeir vinna á einni skrifstofu eða tveimur. Það eru auk heldur meiri líkur til þess, að ósparnaður yrði af því að hafa aðeins eina skrifstofuna, því starfsmennirnir yrðu þá fyrir því meira ónæði í starfi sínu, er þeir yrðu að gegna óskyldum störfum, og við það, sem fleiri menn eiga þá erindi á skrifstofuna. Annars er það fleira, sem fyrir mjer hefir vakað með þessari brtt. Jeg sje ýmsa annmarka á sameiningunni. Hver verslunin um sig er svo stórt viðskiftafyrirtæki, að það er nóg starf fyrir einn mann að veita þeim forstöðu, hvorri um sig. Störfin alveg óskyld, því þó segja megi, að taka megi vínverslunina út úr og sameina hana landsverslun, þá er eðlilegra, úr því að þarf að reka lyfjaverslun, þá sje vínverslunin látin fylgja henni, til þess að jafna fyrirtækin.

Jeg geri ráð fyrir því, að meðhaldsmenn frv. beri fyrir sig ýmsar ástæður. Fyrir flestum mun sparnaðurinn aðalatriðið, en jeg hefi nú sýnt, á hve litlum rökum það er bygt. En fyrir nokkrum mun vaka það, að þeir vænta þess, þegar slengt er saman svo óskyldum störfum, sem hjer er um að ræða, þá muni ýmislegt fremur fara aflaga og gefast höggfæri á fyrirtækinu og ganga betur að fá það lagt niður. Að minsta kosti mun þetta vaka fyrir þeim, sem jafnan hafa verið og eru andvígir verslunarrekstri ríkisins, svo sem háttv. 3. þm. Reykv. (JakM). Hinum, sem raunar eru landsversluninni fylgjandi, vil jeg þá benda á það, að þessi mun og verða afleiðingin af samþykt frv.