06.05.1924
Efri deild: 65. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1167 í C-deild Alþingistíðinda. (2626)

42. mál, einkasala á áfengi

Forsætisráðherra (JM):

Um sjóðþurðina ætla jeg ekki að tala neitt hjer í hv. deild; það væri ekki rjett gert. Málið er tekið til opinberrar rannsóknar, ekki einungis á venjulegan hátt, heldur tekinn sjerstakur rannsóknardómari til að rannsaka málið út í æsar; það er of snemt að kveða upp dóminn áður en rannsókn er lokið. (JJ: Peningana vantar!) Hygg jeg, að málið sje tekið til fullforsvaranlegrar rannsóknar. Peningana vantar, það er alveg rjett; þessvegna hefir verið skipuð ekki einungis rannsókn, heldur sakamálsrannsókn. Hefði alt verið í lagi, þá hefði enga rannsókn þurft. Það er ómögulegt að segja, hvernig í þessu liggur; rangt að fara að dæma, hvar sök er, fyr en rannsókninni er lokið.

Hvað snertir landsverslun, hefir því verið haldið fram, að leggja skyldi áfengisverslunina undir hana, en um það eru skoðanir mjög skiftar.

Jeg hygg, að háttv. 5. landsk. geti ekkert um það borið, hvort þeir eru fleiri en hinir, sem vilja hlaða meir undir landsverslunina en gert hefir verið. Jeg hygg, að þeir sjeu miklu færri. En hvernig kjósendur annars dæma um þessa hluti yfirleitt, það sjest síðar.

Hvað sem um það annars er, þá verður nú að láta slag standa.