19.03.1924
Neðri deild: 27. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1182 í C-deild Alþingistíðinda. (2647)

76. mál, bann gegn áfengisauglýsingum

Jakob Möller:

Jeg skal strax taka það fram, að mjer finst mál þetta vera mjög hjegómlegt. Ekki af því, að jeg er blaðamaður. Jeg veit raunar ekki, hvað blað hv. flm. (TrÞ) hefir fengið mörg tilboð um áfengisauglýsingar, en fæ vel skilið, að þetta hafi meiri þýðingu fyrir það blað, sem er vikublað og hefir lítið af auglýsingum, heldur en dagblöð. En fyrst ríkið á annað borð getur verið þekt fyrir að hafa ágóða af vínsölu, þá finst mjer ástæðulaust af því að hneyxlast svo mjög á auglýsingunum. Og þó jeg sje auðvitað trúaður á mátt auglýsinganna, þá hygg jeg varla, að þær hafi mikil áhrif á drykkjuskapinn. Það er alveg víst, að þeir kaupa vínin, sem í þau langar, án tillit til þess, hvort þau eru auglýst eða ekki. Og þó Bandaríkin leggi bann við vínauglýsingum hjá sjer, þá er það alt öðru máli að gegna. Þar er sem sje fullkomið bann, og væri því hjákátlegt að hugsa sjer áfengi auglýst þar. Hjer horfir málið öðruvísi við. Þau vín, sem auglýst eru, eru frjáls verslunarvara og landið ekki bannland, hvað þau snertir. Frá mínu sjónarmiði er því það, að hneyxlast á auglýsingum, hreinasti barnasjúkdómur, sem löggjafarvaldið getur varla verið að taka mikið tillit til.

Hitt var rjett, sem hv. flm. (TrÞ) tók fram, að það eru auðvitað firmun sjálf en ekki ríkisverslunin, sem auglýsa, til þess að fá sínar tegundir útbreiddar.