19.03.1924
Neðri deild: 27. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1183 í C-deild Alþingistíðinda. (2649)

76. mál, bann gegn áfengisauglýsingum

Flm. (Tryggvi Þórhallsson):

Það var víst hv. 3. þm. Reykv. (JakM), en ekki ritstjóri Vísis, sem áðan var að tala um auglýsingar. En hvað sem um það er, þá get jeg frætt hann um það, að þjóðin er hneyxluð yfir því, að ríkið skuli leita tekna af áfengissölu. Og jeg veit, að hv. þm. (JakM) er eins vel kunnugt og hverjum öðrum um það, að þjóðin hefir aðeins orðið að láta kúgast af okkur sterkari þjóð til að slá af löggjöf sinni og í því efni goldið fátæktar sinnar. Að hún gerði það ekki með ljúfu geði er litlum vafa bundið.

Þá treysti jeg hv. þm. V.-Sk. (JK) til að koma í veg fyrir, að stjórnin geri sig brotlega í þessum efnum, með flöskuumbúnaði og slíku. Veit jeg, að hann mun fúslega leggja sína lögvisku fram til að bæta úr slíkum annmörkum, þegar málið kemur til nefndarinnar.

Að lokum skal jeg enn taka það fram, að það stendur eins á með okkur sem með Bandaríkin og Finna, að þjóðinni er áfengið á móti skapi, og því eigum vjer að hegða oss eins og þær gagnvart áfengisauglýsingunum.