26.02.1924
Neðri deild: 8. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1185 í C-deild Alþingistíðinda. (2654)

30. mál, þingfararkaup alþingismanna

Flm. (Jón Kjartansson): Jeg þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta frv., því það nægir að mestu að vísa til greinargerðar þeirrar, sem frv. fylgir; eins og sjá má á henni, þá eru það 2 efnisbreytingar, sem hjer er um að ræða. Önnur er fólgin í því að fella niður dýrtíðaruppbótina á dagpeningum þingmanna. Á Alþingi 1922 kom fram frv., sem fór í sömu átt hvað þetta snertir, en var feld í Nd. með jöfnum atkv., eða 13:13.

Háværar raddir streyma nú alstaðar frá um nauðsynina á því að draga úr gjöldum ríkissjóðsins eins og frekast er unt. Á yfirlitinu, sem hæstv. fjrh. (KlJ) gaf hjer nýlega yfir fjárhagsástandið, munu flestir sjá, að þessar háværu raddir eru rjettmætar og á rökum bygðar. Og þegar vjer höfum yfirfarið fjárlagafrv. það, sem hæstv. stjórn hefir nú lagt fyrir þingið fyrir árið 1925, verðum vjer enn sannfærðari um þá brýnu nauðsyn, að draga sem mest úr gjöldum ríkissjóðs. Þar er ekki gert ráð fyrir neinum verklegum framkvæmdum, heldur eru fjárlögin einungis lögfestar tölur. Verður þessvegna að keppa að því, að fá ríflegan tekjuafgang á fjárlögunum, svo hægt verði að snúa sjer sem fyrst að framfaramálunum.

Dýrtíðaruppbót til alþingismanna hefir undanfarið numið því, sem hjer segir.

1920 kr. 20966.40

1921 — 70738.24

1922 — 38273.04

1923 — 29260.80

Yfirstandandi ár mundi hún koma til að nema um 20 þús. kr., og má af þessu sjá, að hjer mundi ekki svo lítið sparast.

Hin efnisbreytingin, sem frv. þetta fer fram á, er fólgin í því, að fastsetja ferðakostnað alþingismanna, þannig, að sett sje hámark ferðakostnar úr hverju kjördæmi.

Það hefir sýnt sig, að breytingin, sem gerð var á þessu með lögum nr. 36, 28. nóv. 1919 hefir ekki orðið til bóta. Hafa síðan komið fram ákaflega háir ferðakostnaðarreikningar frá ýmsum þingmönnum. Skal jeg nefna dæmi frá síðustu árum um ferðakostnaðinn úr nokkrum kjördæmum:

Árið 1920 var ferðakostnaður úr Rangárvallasýslu 707 kr., frá Eskifirði 545 kr., úr Árnessýslu 610 kr.

Árið 1921 var ferðakostnaður úr Rangárvallasýslu kr. 770.50, úr Árnessýslu 242 kr., úr V.-Skaftafellssýslu 1488 kr.

Að ferðakostnaðurinn úr V.-Sks. var svo hár þetta ár, stafar þó af því, að þáverandi þm. lagðist veikur um þetta leyti og varð flutningurinn því miklu dýrari en ella.

Árið 1922 var ferðakostnaður úr Rangárvallasýslu 480 kr., úr V.-Skaftafellssýslu 964 kr.

Árið 1923 var ferðakostnaður úr Rangárvallasýslu 357 kr., úr V.-Skaftafellssýslu 1285 kr.

Virðist ferðakostnaðurinn hjer varla ná nokkurri átt, og yfirleitt er auðsætt, að hjer er að meira eða minna leyti um handahófsreikning að ræða. Er það mjög óheppilegt, að þingmenn sjálfir skuli gefa þjóðinni slíkt fordæmi og gæta ekki meiri sparnaðar en raun ber hjer vitni. Er að sjálfsögðu heppilegast að setja með lögum fastan hámarkskostnað úr hverju kjördæmi, svo sem frv. þetta fer fram á. Auðvitað myndu verða gerðar undanþágur, þegar tafir eða aðrar ríkar ástæður yrðu til að hefta för þingmanna og gera ferð þeirra dýrari, og mætti þá auðveldlega bæta þeim þann aukakostnað á næstu fjárlögum. Jeg skal taka það fram, að ferðakostnaður sá, sem frv. gerir ráð fyrir, er úr flestum kjördæmum miðaður við skipaferðir. Það má vel vera, að áætlunin sje heldur knífin sumstaðar, t. d. til Seyðisfjarðar, en það getur sú nefnd, sem um málið fjallar, auðveldlega lagað. Jeg vil þó einnig benda á það, að ferðakostnaðurinn er reiknaður svo lágt með það fyrir augum, að þingmenn fá dagpeninga sína allan þann tíma, sem ferðalagið stendur yfir.

Með því að jeg heyri, að hv. 3. þm. Reykv. (JakM) kveður sjer hljóðs, og jeg býst við, að hann taki nú sem fyr að hreyfa andmælum gegn launalækkun þessari, þá skal jeg nú þegar bæta því við, að jeg gæti fallist á þá málamiðlun, líkt og átti sjer stað á þinginu 1922, þannig, að dýrtíðaruppbótin væri ekki öll feld þegar, en ákveðin, þegar dýrtíðaruppbót yfirleitt verður tekin til meðferðar. Jeg gæti fallist á slíka málamiðlun til samkomulags, en helst kysi jeg þó, að frv. yrði samþ. óbreytt.