26.02.1924
Neðri deild: 8. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1193 í C-deild Alþingistíðinda. (2657)

30. mál, þingfararkaup alþingismanna

Bjarni Jónsson:

Fyrir nokkrum árum var þingfararkaupið hækkað, og minnist jeg þess, að við hv. þm. N.-Þ. (BSv) greiddum þá atkvæði gegn þeirri hækkun. Hafði jeg þá í skimpingum við þingmenn, að þeir ljetu sjer ant um að skara eld að sinni köku, en væru því naumari við aðra. Um þessa hækkun var kveðið:

Tekjuaukann tóku þeir,

töldu mikinn sigur.

Jeg er því albúinn að greiða atkvæði með því, að þetta verði aftur fært til hins fyrra horfs. Hinsvegar er jeg einnig algerlega samþykkur tillögum hv. 3. þm. Reykv. (JakM), bæði um að setja á stofn þing-mensa og um flutning þingmanna í pósti, enda er það auðsær sparnaður. Jeg vil og leyfa mjer að benda væntanlegri nefnd á eitt mikilsvert atriði. Jeg sje það, þegar jeg athuga reikningana, að kostnaðurinn við þingsetu mína er ekki nema þriðjungur móts við kostnað þeirra þingmanna, sem lengst eiga að, því vil jeg spyrja nefndina, hvort henni muni ekki þykja tiltækilegt að stinga upp á, að mönnum, búsettum utan Reykjavíkur, verði bannað að bjóða sig fram til þingsetu. Við það er sparnaðurinn einnig augljós.