26.02.1924
Neðri deild: 8. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í C-deild Alþingistíðinda. (2659)

30. mál, þingfararkaup alþingismanna

Magnús Jónsson:

Mig furðar, að hv. flm. brtt. skuli ekki hafa farið fram á, að þær mættu verða til umræðu ásamt frv. Brtt. var útbýtt í dag, og þarf því afbrigði til þess að mega ræða þær. En þær gefa einnig tilefni til margra hugleiðinga.

Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) sagði, að eftir þessu frv. mundu þeir þingmenn, sem búa lengst frá Reykjavík, vafalaust bíða halla á ferðakostnaðinum. Jeg er því sammála, að þetta muni geta orðið alltilfinnanlegt og að utanbæjarþingmenn muni ekki geta komist af með kaup það, sem frv. ákveður. Þetta er aðalatriðið, eins og jeg benti á, þegar þetta mál var til umræðu á þingi 1922. Það má nota fögur orð um að þingið ætti að byrja á að spara við sjálft sig, en því verður ekki neitað, að þetta stefnir til þess að meina efnalitlum mönnum þingsetu. Þó að menn berjist í bökkum, geta þeir samt haft áhuga á opinberum málum, en með þessu yrði þeim mönnum ef til vill meinað að gera það á þann hátt, er flesta langar til, sem sje að sitja á þingi þjóðarinnar og ráða málum hennar þar til lykta. Þetta er alvarlegt mál og ekki til þess fallið að leika sjer að, til þess að fá lófaklapp fyrir, eins og fyrir fagran sjónleik.

Þetta mál snertir Reykjavík minst, og gat jeg því mótmælt þessu með betri samvisku en margir aðrir. Jeg er ennþá sama sinnis, að ekki megi koma til mála, að þingmenn utan af landi þurfi að gefa með sjer.

Það hefir verið minst óátalið á brtt. hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) og hv. þm. Str. (TrÞ), þó að þær liggi ekki fyrir til umræðu nú, og vil jeg því leyfa mjer að víkja að einu atriði í þeim, sem mjer virðist varhugavert. Þó að brtt. virðist koma verst niður á þeim, sem búa í Reykjavík, einkum embættismönnum, þá er þó að vissu leyti verið að mæla með þeim til þingsetu. Það væri ekki lítið, sem þá mætti spara með því, að þjóðin kysi einungis embættismenn í Reykjavík á þing. Menn eru að tala um að spara með því að leggja niður nokkur launalítil embætti eða stytta þingið um nokkra daga, en það er lítill sparnaður hjá því, ef komast mætti alveg hjá að gjalda nokkurt þingfararkaup. Í kosningabaráttu milli embættismanns í Reykjavík og bónda í sveit gæti það ráðið ekki litlu um úrslitin, að þingseta annars mannsins væri 1–2 þús. kr. ódýrari á ári hverju.

Jeg vil biðja menn að athuga þetta vel. Það má mikið um það deila, hve mikið hnoss almennur kosningarrjettur og kjörgengi er, og skal jeg ekki leggja neinn dóm á það að sinni, en meðan því er slegið föstu, að kjörgengi skuli vera sem allra almennast, er óviðurkvæmilegt að vera eins og að laumast með kuta aftan að því. Mjer finst, að menn megi ekki kasta slíku fram alveg athugunarlaust.