26.02.1924
Neðri deild: 8. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1199 í C-deild Alþingistíðinda. (2662)

30. mál, þingfararkaup alþingismanna

Flm. (Jón Kjartansson):

Það voru fyrstu orð hv. 3. þm. Reykv. (JakM), og hin síðustu, sem komu mjer til að standa upp. Hv. þm. kvað frv. vera ásökun á hendur þm., að þeir væru ekki heiðarlegir, og taldi það ennfremur kjaftshögg á Alþingi. Þessu vil jeg mótmæla, og tel algerlega óviðeigandi að slá slíku fram. Annars minnist jeg þess, að þessi sami hv. þm. flutti á síðasta þingi, ásamt öðrum, frv. um mjög mikla hækkun á launum manna, sem að nokkru leyti má telja starfsmenn ríkisins, sem sje bankastjóranna við Landsbankann, og í greinargerð fyrir því frv. er það talið varhugavert, að þessir menn hafi of lág laun, því að það geti „leitt til skaðræðis fyrir bankann og þjóðfjelagið.“

Jeg vil því ennþá taka það fast fram, að í frv. þessu liggur alls engin aðdróttun, hvorki til hv. þm. eða þingfararkaupsnefndar. Þau ummæli hv. 3. þm. Reykv. (JakM) verða því að teljast mjög óviðeigandi og vítaverð. Fyrir oss, flm. frv., vakti það, að ekki væri nema eðlilegt, að þingið setti ferðakostnaðinn fastan, og telji menn sig hafa ástæðu til að reiðast því, þá gætu hinir sömu víst helst felt sig við það að afnema dagpeninga, en greiða þingfararkaupið líka eftir reikningi.