08.04.1924
Neðri deild: 45. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1207 í C-deild Alþingistíðinda. (2673)

30. mál, þingfararkaup alþingismanna

Jakob Möller:

Jeg hygg, að eg sje heilastur í þessu máli, og mótmæli því, að nefndarhlutarnir skifti mjer á milli sín, eins og hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) vildi gera. Er jeg andvígur báðum hlutunum. Mín skoðun er sú, að þar sem þingfararkaupið er ákveðið af sama þingi sem laun embættismanna, alment, þá sje að sjálfsögðu fult samræmi þar í milli; en við samanburð sjest það, að þingfararkaupið er líka meðal-embættislaunum, og virðist það ekki ósanngjarnt. Nú er það svo, að í ráði er að embættismannalaunalögin verði tekin til endurskoðunar á næsta þingi, og sje jeg ekki neina ástæðu til að fara að taka þessa starfsmenn ríkisins út úr nú. Og það er ljóst, að fyrir menn, sem hjer dvelja utan heimilis síns, þá eru þeir síst ofhaldnir af því kaupi, sem þeir fá nú. Skilst mjer, að það sje engin niðurlæging fyrir þingið, þó það haldi því fram, að þessir verkamenn landsins, þingmennirnir, sjeu verðir launa sinna. Þess verður að gæta, að verði þingfararkaupið lækkað að mun, þá mundi það óhjákvæmilega skerða kjörgengi manna. Ef menn yrðu að kosta sig að meira eða minna leyti til þingsetu, þá gætu aðeins efnamenn kept um þingsætin. Og það tel jeg mjög óheilbrigt og andstætt eðli okkar stjórnskipulags, að meina á þennan hátt nokkrum manni að vinna að þessum störfum. Hvað fjárhaginn snertir, þá er þetta auðvitað hjegómamál, þó talið sje, að sparnaðurinn yrði ca. 10–15 þús. kr. á ári, þá sjá allir, hverja þýðingu það hefir fyrir fjárhaginn, þegar þess er gætt, að útgjöld ríkisins eru um 8 milj. kr. árlega.

Annars er jeg ekki svo skapi farinn, að jeg geti vel talað um þetta hjegómamál í alvöru. En óhræddur er jeg um að sæta ákúrum fyrir afskifti mín af því, þó sumir hv. þm. kunni að halda, að þeir geti með þessu hækkað sig ofurlítið í almenningsálitinu.