08.04.1924
Neðri deild: 45. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1210 í C-deild Alþingistíðinda. (2676)

30. mál, þingfararkaup alþingismanna

Jón Baldvinsson:

Mjer er nær að halda að þetta frv. og brtt. við það sje fremur til þess að sýnast fyrir kjósendum, heldur en að til þess sje ætlast, að þær nái fram að ganga á þessu þingi. Eins og þegar hefir verið minst á, þá verða launalögin bráðlega endurskoðuð, og þá virðist liggja beinast við að taka líka til athugunar þingfararkaup alþm., og geta þeir þá verið eins vondir við sig eins og þeir vilja. En sem sagt: Það er gott fyrir þá hv. þm., sem þannig eru gerðir, að hoppa fyrir framan kjósendur og segja: Sjáið þið, hvað við göngum nærri sjálfum okkur!

Auðvitað nær það ekki nokkurri átt að ætla sjer að fastsetja ferðakostnað úr hinum ýmsu kjördæmum. Það er alt annar ferðakostnaður t. d. frá Hafnafirði heldur en frá Útskálum, þó hvorttveggja staðirnir sjeu í sama kjördæminu. Yfirleitt er sami loddaraskapurinn í kringum alt þetta mál, eins og þegar flokkarnir eru að keppast um að breyta stjórnarskránni og drepa svo alt í sameiningu. Fer væntanlega eins með þetta.

Hlægileg er líka till. um að draga af þingfararkaupi þeirra, sem lifa á eftirlaunum og biðlaunum. Ef t. d. einhver hefir samkv. 18. gr. fjárl. c. 130 kr. í eftirlaun — og slíkar fjárhæðir finnast þar — sem með dýrtíðaruppbót gerir því sem næst 200 kr., þá er það tæp króna á dag, sem ríkissjóður græddi af slíkum mönnum. Þetta er því ekkert nema fálm út í loftið.

Eigi að fara eftir því, hverjir eru best efnum búnir til að geta setið á þingi, þá er það auðvitað, að efnaðir þm. geta eins komið utan af landi og tapað engu meir á þingsetu sinni en hjer búsettir menn. Því verður alt jafnrangt eftir sem áður, þó sú breyting yrði gerð að ákveða þingfararkaup þm. búsettra í Reykjavík lægra en hina, sem heimili eiga utan bæjar.

Að öllu athuguðu verður ekki annað sjeð en hjer sje sami skrípaleikurinn að gerast eins og með stjórnarskrána. Hv. þm. finna þörf til að rjettlæta sig fyrir kjósendum sínum og gefa tilefni til að láta kjósendur landsins dást að sparnaðaráhuga sínum og sjálfsafneitun.