08.04.1924
Neðri deild: 45. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1211 í C-deild Alþingistíðinda. (2677)

30. mál, þingfararkaup alþingismanna

Fjármálaráðherra (JÞ):

Sumir hv. þm. hafa viljað setja þetta í samband við endurskoðun launalaganna, en það er ekki rjett. Þingfararkaupið er ákveðið með sjerstökum lögum og ekkert samband milli þess og launa embættismanna, nema að dýrtíðaruppbótin er hin sama. Dreg jeg líka í efa, hvort þessi fyrirhugaða endurskoðun muni ná til annars en dýrtíðaruppbótarinnar.

Það hefir áreiðanlega aldrei verið litið svo á, að þingfararkaupið væri ætlað þm. til framfærslu þeim og fjölskyldu þeirra. Það mun jafnan hafa verið gengið út frá því, að þeir stunduðu aðra atvinnu til framfærslu heimili sínu, og hvort sem það er í þjónustu ríkisins eða ekki.

Því, sem sagt var um leikaraskapinn í sambandi við þetta mál, leyfi jeg mjer að vísa til baka. Við breytingar þær, sem 1. hl. nefndarinnar vill gera, myndi sparast 10–15 þús. kr. hvert þing, en brtt. 2. hl. ganga enn lengra. Það er annars einkennilegt, hvað ýmsum gengur jafnan erfitt að skilja, að slíkar upphæðir geti munað nokkru fyrir ríkið, þar sem útgjöld þess sjeu 8–9 milj. kr. Jeg vil þó benda þessum mönnum á, að útgjöld ríkisins hafa á síðari árum hækkað úr 2 milj. kr. upp í 10 milj. Upphæð á upphæð ofan hefir verið bætt við, og þó fæstar hafi verið svona stórar, þá hefir þó útgjaldabagginn smámsaman hlaðist upp af vaxandi tölum þessara smáu upphæða. Og ef menn vilja færa þetta í lag, þá eru ekki önnur ráð fyrir hendi en labba niður þann stiga, þrep fyrir þrep, sem menn hafa gengið upp, taka lækkunarupphæðirnar, hvar sem hægt er að fá þær, og leggja niður þann hugsunarhátt, að ekkert muni um smáupphæðir. Því verður held jeg ekki sagt um þessa till., að hún sje fram komin af leikaraskap. Hún er það minsta kosti ekki af hálfu þeirra hv. þm., sem vilja spara sem mest á öllum sviðum.

Jeg vil endurtaka það, sem jeg sagði áður, að jeg teldi vel sæmilegt að launagrundvellinum frá 1912 væri haldið, að viðbættri dýrtíðaruppbót. Annars er erfitt fyrir mig, eins og aðra þá hv. þm., sem búsettir eru hjer í Reykjavík, að gera till. um kaup utanbæjarmanna. Jeg verð samt að halda mjer við það, að 1. hl. hafi sýnt fulla sanngirni, að minsta kosti á móts við hv. 2. hl., því samkv. till. hans yrði þingkaupið 10–12 kr. á dag að meðtalinni dýrtíðaruppbót, og það tel jeg of langt farið í niðurfærslunni. Álít jeg, að till. okkar 1. hl. rati meðalhófið.

Enga sanngirni tel jeg í því, að starfsmenn ríkisins eigi að hafa nokkra sjerstöðu í þessu efni. Fyrst og fremst þurfa þm. að hafa einhverjar aðrar tekjur til að geta framfært sig og fjölskyldu sína, og í öðru lagi er á það að líta, að starfsmönnum ríkisins er yfirleitt lakar launað en öðrum, sem vinna við önnur sambærileg einkafyrirtæki. Því er ekki rjett að takmarka fremur þingfararkaup þeirra manna, sem eru í þjónustu ríkisins, heldur en hinna, sem vinna annarsstaðar.