28.04.1924
Efri deild: 56. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1227 í C-deild Alþingistíðinda. (2693)

121. mál, þingsköp Alþingis

Jóhann Jósefsson:

Frv. þetta, sem við háttv. 5. landsk. höfum tekið að okkur að flytja, er borið fram í því skyni að spara tíma þingsins. Eins og háttv. meðflm. minn gat um í ræðu sinni, höfum við í upphafi verið of ákafir í þessu efni, en hv. deild hefir tekið með velvild móti frv. og metið tilganginn, og er jeg henni þakklátur fyrir það.

Hv. 1. þm. Rang. (EP) var ósamþykkur því, að fjvn. starfaði þannig, að aðrir þm. sjeu ekki nálægt til þess að hafa áhrif á till hennar. Má vel vera, að það sje ekki að öllu leyti það besta, og að einhverjar till. fjvn. yrðu öðruvísi, ef aðrir þm. væru á staðnum. En að það verði til mikils baga, þó fjvn. geri sínar fyrstu till. án þess að þingmenn sjeu við hlið hennar sem ráðgjafar, held jeg að þurfi ekki að óttast. Nefndin getur alls ekki frekar kallast yfirþing, þó hún starfi með þessum hætti. Í fyrstu gr. frv., um það, hvernig störfum fjvn. skuli hagað, felst aðalsparnaðurinn. Hv. 5. landsk (JJ) hefir lýst þessu, og það er álit fjölmargra háttv. þm. Á þessu þingi hefir ekki verið sjerstök ástæða til að kvarta um óeðlilega seinkun fjárlagafrv. En margir þeirra, sem lengi hafa átt sæti á háttv. Alþingi, hafa talið, að undanfarið hafi fjvn. Nd. lengt setu þingsins um of, og tímasparnaður yrði við það, að nefndin væri búin að gera sitt frv. úr garði að mestu leyti, þegar þing kæmi saman.

Mjer skildist á hv. þm. (EP), að verði frvgr. breytt, eins og lagt hefir verið til, álíti hann, að frv. sje þar með eyðilagt, því þetta fyrirkomulag geti aðeins gilt þau ár, sem kosningar fara ekki fram. Get jeg ekki fallist á þessa röksemd. Þó ekki væri hægt að spara á öllum þingum, er bót að breytingunni, enda mundi það vera fleira, sem leiddi til sparnaðar með þessari tilhögun.

Háttv. 1. landsk. (SE) kvaðst vera á móti öllum breytingum. Getur verið, að þetta sje meining hv. þm., en jeg skil ekki þá „logik“ að setja sig á móti öllum breytingum á hverju sem er, ef ekki er hægt að mótmæla, að þær miði til bóta.

Af því hv. 5. landsk. (JJ) er ekki ennþá kominn í Íhaldsflokkinn, þá verð jeg að taka til mín orð hv. 1. landsk. (SE) í garð þess flokks, að það sæti ekki á þeim mönnum að koma fram með breytingar yfir höfuð. En það er ekkert athugavert við það, að maður úr Íhaldsflokknum komi fram með breytingu, sem hefir sparnað á fje þjóðarinnar í för með sjer, því sparnaðurinn er eitt af stefnuskrármálum þess flokks — jafnvel þó breytingin sje á sjálfum þingsköpunum. Eftir röksemdafærslu 1. landsk. (SE) ætti aldrei að breyta til um neitt, jafnvel þó augljóst væri, að breytingin yrði til bóta. Ekki skal jeg öfunda hv. þm., ef hann ætlar að taka þá föstu afstöðu til allra mála yfir höfuð. Ef menn eru á móti till., sem fara í endurbótaáttina, einungis af því, að þær eru breytingar á því fyrirkomulagi, sem er, þá duga ekki rök. Hvort ástæða til breytingar er knýjandi eða ekki, er oft álitamál, en það get jeg sagt hv. 1. landsk. (SE) um þetta frv., að það fer ekki fram á að raska í neinu þeim „prinsipum“, sem jeg veit að hann ber mest fyrir brjósti. Ætti þessvegna hv. þm. að geta fylgt frv. okkar. Vil jeg einnig vona, að hv. deild sjái sjer fært að samþykkja frv., með þeim breytingum, sem hv. allshn. hefir gert á því.