28.04.1924
Efri deild: 56. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1229 í C-deild Alþingistíðinda. (2694)

121. mál, þingsköp Alþingis

Sigurður Eggerz:

Það er rjett hjá hv. þm. Vestm. (JJós), að það er ekki hægt að komast hjá ýmsum breytingum oft og tíðum; en það eru viss undirstöðuatriði, sem þjóðfjelagið hvílir á, sem má ekki breyta í snarkasti. Ef maður lítur til Englands, rekur maður sig á ýmsa gamla og í sjálfu sjer broslega siði, bæði á þinginu og í hæstarjetti og víðar. En jafnvel þessum broslegu siðum er ekki breytt. Svo mikil helgi er um þessa staði. Erlendis dettur engum manni í hug að fara að rjúka í að breyta hæstarjetti, þó að komi fjárhagsörðugleikar, eða slátra háskólanum. En hjer er það sjálfur Íhaldsflokkurinn, sem hamast á þessum stofnunum. Svo er margt skrítið á þessu landi.