08.03.1924
Neðri deild: 18. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1239 í C-deild Alþingistíðinda. (2715)

66. mál, byggðarleyfi

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Ástæðurnar fyrir því, að jeg hefi flutt þetta frv., eru aðallega tvær, sem jeg mun nú gera nánari grein fyrir.

Fyrri ástæðan er sú, að jeg er sannfærður um, að sá mikli fólksstraumur, sem nú hefir lengi átt sjer stað úr sveitunum til kaupstaðanna, og að sjónum yfirleitt, sje ekki til neinna þjóðþrifa, hvorki hvað snertir efnahag þjóðarinnar og því síður andlega menning hennar.

Jeg álít að okkar góða og gamla sveitamenning standi fyllilega jafnfætis bæja- eða kaupstaðamenningunni. Eins og nú er komið málum, þá er orðið of fátt fólk í sveitunum. Þar eru ótal möguleikar og ótal verk að vinna. Þar gæti áreiðanlega miklu fleira fólk lifað góðu og sjálfstæðu lífi en nú er. En fólkið vill af ýmsum ástæðum þyrpast að sjónum, til kaupstaðanna og veiðistöðvanna. Skemtanafýsn og tálvonir um uppgripagróða eiga mestan þátt í því. Nú eru víða í sveitunum mörg heimili, þar sem eru hjónin ein með börnum og ef til vill gamalmennum, og ekki annað vinnandi fólk. Þegar svo börnin komast yfir fermingu, þá fara þau til kaupstaðanna og draga þá oft foreldra sína með sjer. Nú virðist svo sem í kaupstöðunum sje fólkið orðið of margt. Að minsta kosti er kvartað yfir atvinnuleysi í kaupstöðum og sjóþorpum, sem jeg get ekki skilið að stafi af öðru en því, að annaðhvort sjeu atvinnuvegirnir, sem þar eru reknir, reknir á skökkum grundvelli, eða þá að fólkið sje of margt, samanborið við þá eðlilegu atvinnumöguleika, sem fyrir hendi eru. Jeg gæti best trúað, að báðar þessar ástæður, sem nú voru tilfærðar, ættu sök á atvinnubrestinum. Eins og kunnugt er, hafa á síðari tímum þotið upp stór atvinnufyrirtæki við sjóinn, sem hafa dregið að sjer fjölda fólks. Þessi atvinnufyrirtæki eru rekin ýmist af einstökum mönnum eða fjelögum, og án allrar tryggingar um það, að þau geti altaf haldið áfram að starfa. Þarna safnast svo fólk að. Og þegar svo slíkur stóratvinnurekstur fer á höfuðið, eða hættir af öðrum ástæðum, þá stendur þar eftir fjöldi fólks alveg atvinnulaust.

Frv. þetta er fram komið til þess að reyna að draga ögn úr þessu öfugstreymi, sem jeg álít, að sje hjer á ferðum, frá sjónarmiði menningar og þjóðþrifa þessa lands. Jeg veit að vísu, að þó þetta frv. yrði að lögum, þá mun það ekki fá breytt eða stöðvað þennan straum með öllu, enda er það ekki tilgangurinn. En það mun hamla straumnum nokkuð, leggja ofurlitlar hindranir í veginn. Jeg tel víst, að bæjar- og sveitarfjelög, sem liggja að sjó, muni nota þá heimild, sem frv. mitt fer fram á að þeim sje gefin, til þess að synja um bygðarleyfi, einkum þegar atvinnuleysi væri á þeim stöðum eða stæði fyrir dyrum.

Önnur ástæðan, og um leið aðalástæðan fyrir flutningi frv., er sú hætta, sem jeg álít, að framfærsluhjeruðum, bæði sveitar- og bæjarfjelögum, stafi af innflutningi fólks, einkum nú, síðan sveitfestistíminn var styttur ofan í 4 ár. Jeg gat áður um stór atvinnufyrirtæki, sem draga að sjer fjölda fólks og hætta svo alt í einu. Þegar svo er komið, er fjöldi af þessu fólki búið að vinna sjer sveitfesti á stöðunum. Og geta allir sjeð, hvílík hætta vofir þá yfir hlutaðeigandi sveitarfjelagi af auknum hreppsþyngslum. Jeg þekki vel til í einu sveitarfjelagi, sem liggur að sjó. Þar er síldarverksmiðja, og nálægt henni er vaxið upp þorp, þar sem sumt af því fólki byggir, sem vinnur við síldarverksmiðjuna. Með öðrum orðum: Fólk, sem þarna hefir þyrpst saman, lifir að nokkru leyti á þeirri atvinnu, er síldarverksmiðjan veitir. Ef nú verksmiðjan hættir að starfa, eða þá — sem hefir komið fyrir — að hrúgað er þangað útlendu verkafólki — hvað tekur þá við? Sumt fólkið tekur aðra atvinnu; en enginn efi er á, að margt færi blátt áfram á sveitina. Jeg álít, að ef þetta kæmi fyrir eftir 4 ár, er þetta fólk hefir unnið sjer sveitfesti samkvæmt nýju lögunum frá í fyrra, þá mundi þessu sveitarfjelagi nóg boðið. Það mundi ríða því að fullu. En ef þau tryggingarákvæði yrðu sett, sem hjer er farið fram á, þá gæti þetta sveitarfjelag og önnur útilokað að einhverju leyti þá menn, sem mest hætta virtist stafa frá, mestu óreiðumenn, o. s. frv.

En það er ekki aðeins, að þessi hætta steðji að þeim sveitarfjelögum, sem liggja að sjó. Jeg þekki líka vel til í sveitarfjelagi, sem liggur til fjalla. Því stendur mikil hætta af því, að utanaðkomandi fátæklingar vinni sjer þar sveitfesti.

Sveitarstjórnir hafa löngum átt í brösum út af fátækraframfærinu og reynt óspart að velta byrðunum hvort á annað, og neytt til þess ýmsra bragða — svipað og á sjer stað milli ríkja. — Hreppstjórnir eru oft í þessu efni mestu stjórnvitringar.

Meðan sveitfestitíminn var 10 ár, þá var það jafnvel ekki dæmalaust, að efnuð sveitarfjelög legðu stund á að eignast minni jarðir í öðrum hreppum, í því skyni að setja þangað fátæklinga, sem þau vildu losa sig við, og láta þá vinna sjer þar sveit. Nú, þegar sveitfestitíminn er ekki orðinn nema 4 ár, þá er enn meiri ástæða fyrir sveitarstjórnir að leita þessa bragðs, og hættan vex að því skapi fyrir þau sveitarfjelög, sem minni máttar eru.

Jeg hefi nú tekið dæmi af tveim sveitarfjelögum. Annað liggur við sjó, hitt ekki. Báðum er jafnnauðsynlegt að fá þessi tryggingarákvæði lögleidd. Og jeg hygg, að líkt sje ástatt víða um land. Nú vill ef til vill einhver segja, að önnur leið sje beinni en að koma með þetta frv., sem sje — að færa sveitfestitímann aftur upp í 10 ár, til þess að fyrirbyggja slík brögð. En þá leið datt mjer alls ekki í hug að fara. Þrátt fyrir það, þó jeg telji nauðsynlegt að svona löguð tryggingarákvæði fylgi styttingu sveitfestitímans, þá álít jeg það alveg rjett, út af fyrir sig, að stytta hann. Jeg skal ekki nú fara lengra í það mál, en jeg tel það hala verið rangt í fátækrafyrirkomulaginu, að fæðingarhreppur, sem ef til vill hefir ekki notið manns neitt, skuli skyldur að taka við framfærslu hans, ef þörf gerist. Stytting sveitfestitímans miðar til þess, að síður verði hætta á þessu. En jafnframt verður sú trygging að fylgja, sem frv. fer fram á, og yfirleitt mun hún vera nauðsynleg, meðan fátækralögin eru þannig, að ætlast er til þess, að sveitarfjelög annist framfærslu þurfamanna, en ekki þjóðfjelagið í heild.

Mörgum mun finnast, að þetta frv. gangi nokkuð nærri athafnafrelsi manna. Það er nokkuð hart að mega ekki flytja hvert á land sem maður vill. En það verður að gæta að því, að hitt er þó enn harðara, fyrir framfærsluhjeruðin, að hljóta, hvort sem þau vilja eða ekki, að taka við hvaða óreiðumanni sem er; og þar með er framfræðsluhjeraðinu lögð sú skylda á herðar að annast þennan mann og alla hans fjölskyldu til æfiloka, ef þörf gerist, er hann hefir unnið sjer þar sveitfesti. Það er rjett og eðlilegt, að sveitarfjelagið hafi nokkurt atkvæði um það, hvort það vilji taka á sig þessa skyldu. Jeg get heldur ekki sjeð, að ákvæði sem þetta sje nokkuð einstakt í löggjöf okkar nje annara þjóða. Jeg skal minna á það, að ekki getur hvaða útlendingur sem er komið hingað og haft sama rjett og íslenskir borgarar hala. Hjer á jeg við lög um íslenskan ríkisborgararjett. Hjer er að vísu nokkuð ólíku saman að jafna — og þó hliðstæðu að nokkru leyti. — Sveitarfjelagið er sjerstakt fjelag. Og eins og ríkið veitir ríkisborgararjett, eins á sveitarfjelagið að hafa rjett til þess að ákveða sjálft, hvaða utanaðkomandi menn eigi að fá sama rjett og innfæddir sveitarbúar. Jeg játa, að mjer er það ljóst, að gallar muni vera á þessu frv., hvað form snertir. En jeg vona þó, að ef hið háa Alþingi á annað borð vill aðhyllast stefnu frv., þá sjeu þeir gallar ekki meiri en svo, að þá megi laga í nefnd og meðferð málsins yfirleitt í þinginu.

Jeg mun svo ekki tala meir um frv. að sinni. En aðeins taka það fram, að ef þau ákvæði, sem hjer ræðir um, ná ekki fram að ganga, þá verður, að jeg álít, að gerbreyta fátækrafyrirkomulaginu. Annars gæti farið svo, að lítil sveitarfjelög og þau framfærsluhjeruð, sem mikill fólksstraumur er til, t. d. við sjóinn, komist í hrein og bein þrot áður en varir.

Jeg leyfi mjer svo að leggja til„ að frv. verði vísað til 2. umr., að þessari lokinni, og til allshn.