08.03.1924
Neðri deild: 18. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1244 í C-deild Alþingistíðinda. (2716)

66. mál, byggðarleyfi

Björn Líndal:

Jeg get vel skilið hv. flm, og það, sem fyrir honum vakir.

Hann vill reyna að stöðva straum fólksins til sjávarins, sem hefir verið miklu meiri en góðu hófi gegnir þessi síðari ár. Jeg er samdóma honum um það, að það sje æskilegt, að úr honum sje dregið. En jeg álít þá leið ekki tiltækilega, sem þetta frv. bendir til. Jeg held, að hv. flm. hafi naumast gert sjer grein fyrir því, hve frv. hans gengur nærri persónulegu frelsi manna. Annars hefði hann ekki komið fram með það. Jeg get því alls ekki greitt því atkvæði mitt. Og skal jeg nú með örfáum dæmum leiða rök að þessu.

Eigi maður jörð í öðru sveitarfjelagi og vilji taka hana sjálfur til ábúðar, þá getur hreppsnefnd bannað honum að setjast á sína eigin jörð. Þá hefir maður ekki leyfi til að fá sjer vinnumann úr annari sveit, nema hreppsnefnd samþykki, nje heldur að taka til sín sjúkan vandamann á heimili sitt. Jeg vil taka það skýrt fram, að jeg vil ekki ofurselja mitt sjálfstæði í hendur hreppsstjórnar. Jeg vil sjálfur ráða því, hvaða fólk jeg hefi á mínu heimili.

Jeg hefi annars ekkert á móti því, þó þetta frv. komist í nefnd. En jeg vona, að það komist ekki lengra.