18.03.1924
Neðri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1248 í C-deild Alþingistíðinda. (2723)

83. mál, fátækralög

Flm. (Jón Baldvinsson):

Á síðustu þingum hafa komið fram ýmsar tillögur til breytinga á ákvæðum fátækralaganna frá 10. nóv. 1905, í samræmi við þá skoðun, sem nú mun alment vera orðin ríkjandi, að menn eigi ekki að gjalda þess eða missa mannrjettindi sín, þó þeir geti ekki bjargað sjer og fjölskyldu sinni áfram án hjálpar sveitarinnar, þegar erfiðir tímar eru eða óhöpp ber að höndum.

Ekki verður annað sagt en nokkrar breytingar hafi líka orðið á fátækral., sem fara í mannúðlegri átt, en flestar þeirra ná mjög skamt. Helstar eru þær, sem ná til veikra manna, þeirra, sem samkvæmt læknisráði verða að fara á sjúkrahús. Einnig má í þessu sambandi nefna berklavarnarlögin. Í þessu frv. er gengið lengra. Þar er skrefið stigið fult og það ekki látið varða rjettindamissi, þó menn fyrir sakir vanheilsu eða annara óviðráðanlegra atvika neyðist til að leita á náðir bæjar- eða sveitarfjelags.

Þess er rjett að minnast, að á síðari árum hafa gefist alvarlegar ástæður til breytinga á fátækralögunum. Á jeg þar við atvinnuleysið, sem á síðari tímum hefir gert vart við sig, og það á svo alvarlegan hátt, að mörgum manni hefir af þeim sökum verið meinað að halda lífi í sjer og sínum án utanaðkomandi hjálpar. Þetta atvinnuleysi er ekki mönnunum sjálfum að kenna, og þó þeir vildu brjótast í einhverju til að sjá sjer fyrir atvinnu, þá er hvergi fje að fá til að koma slíku af stað. Og þar sem mikill hluti atvinnutækjanna er látinn liggja ónotaður tímunum saman, þá sýnist ekki vera ósanngjarnt, þó eigendur þeirra leggji nokkurn skerf til bæjarsjóðs handa atvinnulausum mönnum, þar sem megnið af atvinnuleysinu má teljast þeim að kenna. Og virðist því varla rjett að svifta menn kosningarjetti og öðrum mannrjettindum fyrir þær sakir.

Þess má geta, að nýmæli er það, að skuldir, vegna styrks, er veittur hefir verið eftir þessum lögum, fyrnist. Jeg held það sje enginn kostur fyrir sveitarfjelögin að burðast með skuldir, sem þau ef til vill fá aldrei greiddar. Og heldur ætti það að ýta undir menn að bjarga sjer yfir örðugleikana, er þeir vissu, að allur ávinningur af starfi þeirra væri ekki bundinn fyrirfram vegna styrks, sem þeir hafa orðið svo ólánssamir að þurfa á að halda. Slíkum mönnum þarf fremur að hjálpa yfir örðugleikana en draga þá niður með slíku móti.

Þá hefði jeg talið þá hugmynd hafa talsvert til síns máls að gera alt landið að einu framfærsluhjeraði. Togstreitan milli hreppanna um þessi efni er ekkert skemtileg, nje heldur öll þau undanbrögð, sem reynt er að hafa í frammi, og sem enn meira ber á eftir að sveitfestistíminn hefir verið styttur. Og óþarfa og óheppilega röskun á högum manna hlýtur það líka að hafa í för með sjer, þegar þeir eru rifnir upp og sendir á sína sveit, ef þeir þurfa á styrk að halda, þó ekki sje nema um stundar sakir. Hefi jeg að vísu ekki gert neina uppástungu um þetta í frv. mínu, en ekki efast jeg um að viðunandi fyrirkomulag mætti finna, sem rjeði bót á þessu.

Fleira mun jeg ekki taka fram að sinni, nema mjer gefist tilefni til þess. Fel jeg svo hv. deild frv. mitt á þskj. 118, og vænti þess, að því verði lofað að ganga til allshn., að umr. þessari lokinni.