28.04.1924
Neðri deild: 57. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1256 í C-deild Alþingistíðinda. (2730)

83. mál, fátækralög

Atvinnumálaráðherra (MG):

Mjer finst frv. það, sem hjer ræðir um, svo illa orðað, að örðugt, ef ekki ómögulegt væri að samþ. það, þó maður gæti gengið að efninu.

Í a-lið 1. gr. er kveðið svo á, að sveitarstyrk skuli ekki telja þann styrk, sem maður fær, er hefir fleiri en 3 heimilisföst börn framfærsluskyld. Það á víst að skiljast svo, að börnin skuli vera á heimili framfæranda, því einhversstaðar hljóta börnin altaf að vera heimilisföst. En nú sje jeg ekki, hver munur er á, að barnið sje á heimili framfæranda eða annarsstaðar, þar sem honum er kanske alveg eins dýrt að hafa það þar.

Nú ef kona á í hlut, þá er ekkert skilyrði um, að barnið sje heimilisfast hjá henni. Hvaða samræmi er nú í þessu? Í b-lið stendur, að maður, sem fær styrk sakir vanheilsu, sem gerir hann ófæran til vinnu um lengri eða skemri tíma, skuli ekki teljast til sveitar. Hjer er ekkert ákvæði um tímann, svo maður, sem hefir verið veikur í 1–2 daga á heimild til að fá styrk, án þess að það sje talinn fátækrastyrkur. Þetta er í raun og veru hrein vitleysa, og svona ákvæði eru algerlega óhæf í lögum. Í c-lið er styrkur, sem veittur er vegna atvinnuskorts, þegar sveitar- eða bæjarfjelagið getur ekki vísað manni á atvinnu, ekki talinn sveitarstyrkur. En það er altaf hægt að vísa mönnum á atvinnu einhversstaðar og einhversstaðar. Og eigi það að nægja, að sveitarfjelagið segi við manninn: Farðu og vinn þú þar og þar, eða: Farðu til Ameríku; þar er nóg atvinna, þá er þetta ekkert nema leikur. Auðvitað verður atvinnan að vera þar, sem maðurinn getur fært sjer hana í nyt.

Um d-liðinn hefi jeg fátt að segja. Eftir honum eiga í rauninni allir, sem eru fullra 60 ára, heimting á, að þeim sje veitt frítt uppihald án þess að það teljist sveitarstyrkur. Þetta er kanske sanngjart og er til í lögum sumstaðar annarsstaðar, en eg er hræddur um, að slíkt kynni samt að verða notað nokkuð að óþörfu. Og þó ekki væri nema vegna þessa eina ákvæðis frv., mundi jeg eiga erfitt með að samþ. það.

En sem sagt. Það er svo hroðvirknislega gengið frá frv. af hálfu hv. flm. (JBald), að það virðist bein sönnun þess, að hann hafi búist við, að það myndi ekki ná fram að ganga. Og eins og það er nú, er alls ekki hægt að samþ. það.