28.04.1924
Neðri deild: 57. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1258 í C-deild Alþingistíðinda. (2732)

83. mál, fátækralög

Bjarni Jónsson:

Jeg held, að það sje svartur blettur á sögu löggjafar vorrar, að enn stendur í stjórnarskánni, að menn missi mannrjettindi sín, ef þeir verða styrkþegar fyrir fátæktar sakir, þetta kemur svo illa niður á mörgum mönnum, að allir rjettsýnir menn verða að játa, að mein sje að búa við slíkt. En nú er ekki vel gerlegt að hlaupa í það að breyta stjórnarskránni fyrir svo lítið ákvæði, og því er reynt að komast í kring um það, með því að bera fram breytingar með almennum lögum, sem bæta úr þessu. Hefi jeg á undanförnum þingum flutt frv. í líka átt og þetta fer.

Nú skilst mjer, að málinu sje í óefni komið, ef hæstv. atvrh. (MG) og hv. flm. (JBald) fara að þreyta kappræður og gerast ósáttir út af orðalagi frv. En jeg skildi svo hæstv. atvrh. (MG), að hann myndi fylgja málinu, ef orðalagið væri nógu skýrt. Nú er það aldrei nema kostur á lögum, að þau sjeu sem skýrast orðuð og svo ótvíræð sem verða má, og hv. flm. getur ekki talið það neina skemd á frv., þó því yrði breytt þannig, að orðalagið yrði sem skýrast. Mjer finst því, að hann og hæstv. atvrh. (MG) geti komið sjer saman um að orða frv. eins og hæstv. atvrh. telur fullnægjandi, þar sem aðalatriðið er, að komist verði í kringum þetta ákvæði, að menn missi mannrjettindi sín sakir fátæktar.

Jeg ætla ekki að tala um einstakar gr. frv., en legg þetta eitt til, að annaðhvort fái nú frv. að fljóta áfram og þessi samvinna um orðalagið eigi sjer stað fyrir 3. umr., eða þá, að það verði nú tekið út af dagskrá og lagað.

Jeg hefði ekki ætlað og vildi ógjarnan að kappræður um orðalag yrðu til þess að leggja stein í götu þessa máls. Mjer er sagt, að söngvarar kunni illa ósamkvæmni í söng og skáld ósamræmi og smekkleysum í skáldskap, og mjer er líka sagt, að rjettlátir menn uni illa ósamræmi og ranglæti í löggjöfinni, en það á sjer stað hjer, með því að setja skammarblett á þá menn, sem þurfa að leita styrks vegna fátæktar. Jeg veit, að við teljum það ekki skammarblett á þeim; við höfum of margir verið fátækir til þess að gera það. En stjórnarskráin, hún gerir það með því að taka af þeim mannrjettindi fyrir slíkt. Úr því verður að bæta.