28.04.1924
Neðri deild: 57. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1260 í C-deild Alþingistíðinda. (2733)

83. mál, fátækralög

Atvinnumálaráðherra (MG):

Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) tók illa athugasemdum mínum og taldi þær ekki sprottnar af góðum hug. Hann um það. Jeg held fast við, að frv. hans er mjög illa orðað. Eða getur hann sagt mjer, hvernig á því stendur, að maður, sem á 4 börn, þar af 3 heima en eitt utan heimilis á meðgjöf, á engan rjett á styrk, en annar, sem á 4 börn heima, á að fá styrk, án þess að þurfi að teljast til sveitarstyrks. Hvaða sanngirni er í þessu? Það eru engin rök hjá hv. þm. (JBald) að segja, að jeg brúki hjer lagakróka, heldur á hann að færa rök að sanngirni þessara ákvæða.

Jeg spurði hann, hvort það væri nóg að vísa mönnum á atvinnu hvar sem vera skyldi, og kom þá upp úr dúrnum, að því er mjer skildist, að atvinnan þyrfti að vera innan hrepps eða sveitar, því hann sagði, að ekki nægði að vísa mönnum hjeðan úr Rvík, upp í Elliðakot eða austur í Árnessýslu. En ef svo er, er hv. þm. (JBald) þá það barn að vita ekki, að þetta verður að taka fram í lögunum? Annars verð jeg nú að telja, að það væri fullforsvaranlegt að vísa mönnum hjer í Reykjavík á atvinnu t. d. upp í Mosfellssveit, og að þeir, sem ekki hirtu um að færa sjer hana í nyt, ættu skilið að missa rjettindi við það að þiggja styrk í staðinn.

Þetta, sem hv. þm. (JBald) var að slá fram út af ummælum mínum um atvinnu í Ameríku, sýndi mjög áþreifanlega, hve frv. hans er illa orðað, því hann gat ekki mótmælt orðum mínum nema með útúrsnúningi.

Hv. þm. nefndi ekki ákvæðið um menn, sem veikir hafa verið í lengri eða skemri tíma. Treysti sjer sjálfsagt ekki til að færa nein rök fyrir því.

Jeg vildi annars gjarnan vinna að breytingum á orðalagi frv. með hv. flm. (JBald), ef okkur skilur ekki of mikið á, hvað efnið snertir. En jeg er hræddur um, að svo kunni að vera, og er því ekki viss um, að ráðleggingin frá hv. þm. Dala. (BJ) komi að gagni. Hv. þm. Dala. var að tala um, að ótækt væri að líta svo á, að fátækt setti nokkurn skammarblett á menn. Jeg held það líka, en hinsvegar tel jeg það skammarblett á mönnum að nenna ekki að leggja neitt á sig til þess að verða ekki handbendi annara.