18.03.1924
Neðri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1266 í C-deild Alþingistíðinda. (2751)

88. mál, bankavaxtabréf

Flm. (Jón Kjartansson):

Jeg skal lofa því að þreyta menn ekki með langri framsöguræðu, þar sem áliðið er orðið.

Fyrir ekki löngu síðan kom fram frv. í þessari hv. deild, sem fór í líka átt og þetta frv., sem miðaði að því, að landbúnaðurinn gæti fengið hagkvæm lán í Landsbankanum. Það er frv. á þskj. 87, frá hv. þm. Str. (TrÞ). Hafði jeg þá skrifað þetta frv. mitt, en stöðvaði það í bili, af því að jeg hjelt, að hitt kynni að leysa úr málinu. En er jeg hafði athugað nánar frv. hv. þm. Str. á þskj. 87, ákvað jeg að láta þetta frv. koma fram líka. Því mjer virtist frv. á þskj. 87 þannig úr garði gert, að það kynni að vera erfiðleikum bundið, að það næði fram að ganga. Skal jeg þó ekki fullyrða neitt um það, fyr en hv. nefnd hefir skilað áliti sínu. En mjer þótti leiðinlegt, að málið þyrfti að stranda á því, að frv. hv. þm. Str. þætti ekki aðgengilegt, og hefi því komið fram með frv. þetta á þskj. 126, ef hv. nefnd kynni að kjósa það frekar.

Þetta frv. á þskj. 126, um útgáfu nýrra bankavaxtabrjefa, sem eingöngu eru ætluð landbúnaðinum, er að mestu samið eftir lögunum frá 1913 um 4. flokk veðdeildar Landsbankans. Aðeins er í 1. gr. upphæðin lækkuð úr 5 milj. kr. niður í 2½ milj. kr. og framlag ríkissjóðs minkað um helming. Eins er í 6. gr. frv. ætlast til þess, að lána megi aðeins gegn veði í jarðeignum og graslendum.

Svo er og 9. gr. breytt frá því, sem er í lögunum frá 1913, þannig, að tíminn er styttur, — lánin megi ekki standa lengur en 25 ár. Sumum kann ef til vill að þykja þetta stuttur tími, en þess ber að gæta, að þetta frv. er aðeins bráðabirgðaráðstöfun til hjálpar landbúnaðinum, þar sem vitanlegt er, að bændur geta nú engin lán fengið. Er það í þessu efni líkt og frv. hv. þm. Str. Jeg býst hinsvegar við, að þessi leið, um veðdeildarlán fyrir bændur, verði ekki framtíðarleiðin, sem farin verður.

Það kann og að vera, að skiftar skoðanir komi fram um það, hvort þetta sje aðgengilegt, þegar litið er á það, að bankavaxtabrjef 4. flokks hafa fallið allmikið í verði og seljast nú ekki fyrir hærra verð en 70–75 kr. hvert 100 kr. brjef. En það fall er ef til vill sök bankans, vegna þess, að hann hefir ekki lagt nógu mikla rækt við að halda brjefunum í hærra verði.

Því er mælt svo fyrir í frv. þessu, að bankinn kaupi brjef 5. flokks fyrir ákveðið verð, eða með ekki meiri afföllum en hæst 6–10%, og er með því girt fyrir það, að brjefin falli óhæfilega í gildi. Er það sannfæring mín, að veðdeildarbrjefin sjeu tryggustu verðbrjefin, sem við eigum, og er ilt til þess að vita, að þau falli niður úr öllu valdi fyrir mistök þeirrar stofnunar, sem með þau fer.

Jeg skal svo ekki orðlengja frekar um frv. Vonast jeg eftir, að það gangi hljóðalaust gegnum þessa umr. og verði að henni lokinni vísað til hv. landbn., sem athugi það í sambandi við frv. hv. þm. Str.

Jeg skal geta þess, að það vantar í frv., hvenær það gangi í gildi, og vænti jeg þess, að hv. landbn. vilji bæta við nýrri grein aftan við 23. gr., ef hún vill veita frv. lið sitt.