18.03.1924
Neðri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1268 í C-deild Alþingistíðinda. (2752)

88. mál, bankavaxtabréf

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg skal þegar í upphafi máls míns taka það skýrt fram, að mjer dettur ekki í hug að leggjast á móti frv. þessu. Þvert á móti þykir mjer vænt um hugsun þá eða tilraun, sem liggur því til grundvallar, þá, að reyna að ráða bætur á þörf landbúnaðarins á hagkvæmum lánum.

En það kemur fram í greinargerð frv., eins og í ræðu hv. flm. (JK), að lagt er til, að þessi leið sje fremur farin en sú, sem jeg bendi á í frv. mínu á þskj. 87. Að þeirri hlið málsins einni vil jeg örlítið víkja.

Vil jeg þá fyrst taka það fram, að mjer er kunnugt um — og jeg hygg það ekkert launungarmál — að enn stendur ca. 1 milj. kr. eftir í 4. flokki veðdeildar Landsbankans, og geri jeg ekki ráð fyrir að bankinn vilji lána út á ný brjef fyr en þessi deild er búin; kæmi því þessi 5. deild ekki strax til framkvæmda.

Jeg skal nefna annað. Jeg hef athugað það — þar sem jeg er yfirskoðunarmaður Landsbankans — og mjer er víst óhætt að skýra frá því, þá hefir, að Skeiðaáveitunni undanskilinni, aðeins hluti upphæðar lánanna úr þessum 4. og síðasta veðdeildarflokki Landsbankans gengið til landbúnaðarins, 9/10 hafa farið til húseigna í Reykjavík og öðrum kauptúnum. Jeg vil benda á þetta, að veðdeildarfyrirkomulagið hefir ekki reynst landbúnaðinum betur en svo, að langmestur hlutinn hefir gengið til kauptúnanna, enda eru lánin dýr og með miklum afföllum.

Þá er farið fram á það í frv. háttv. þm. V.-Sk. (JK), að lánstíminn sje styttur, en landbúnaðinum ríður á að fá sem lengst og hagkvæmust lán, enda er það alviðurkent, að hin tryggustu lán eiga að fá að standa í lengstan tíma.

Jeg hygg líka, að hv. flm. (JK) hafi verið of vægur í kröfum fyrir hönd landbúnaðarins með frv., og það er það eina, sem jeg hefi á móti því. Það kemur meðal annars fram í greinargerðinni, þar sem svo segir, — með leyfi hæstv. forseta —: „og þess vænst, að bankinn geti keypt brjef hans af lántakendum eftir hendinni, með ekki meiri afföllum en hæst 6–10%.“

Það er ákaflega hætt við því, að Landsbankinn treysti sjer ekki til að kaupa brjefin við hærra verði en gangverði, og get jeg því ekki sætt mig við það fyrir hönd landbúnaðarins, að ekki sjeu meiri skorður reistar við verðfallinu en að „þess sje vænst“, að fyrir það verði tekið.

Eins og jeg tók fram, þá hefi jeg þó mest við það að athuga, að lánstíminn er svo stuttur, því fyrir mjer er það aðalatriðið, að hann sje sem lengstur, svo lánin sjeu sem tryggust.

En að lokum legg jeg enn áherslu á það, að jeg er ekki á móti frv., en skýt því aðeins til hv. landbn., að hún taki það frv., sem henni virðist bæta betur úr þessari brýnu þörf, sem nú er á því, að landbúnaðurinn fái góð lán.